Handbolti

„Fram­haldið er erfiðara og skemmti­legra“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Snorri Steinn mun undirbúa liðið vel fyrir átök kvöldsins.
Snorri Steinn mun undirbúa liðið vel fyrir átök kvöldsins. vísir/vilhelm

„Meiðslalega erum við fínir. Næstum allir með á æfingu en Bjarki aðeins meiddur í hnénu en ekkert alvarlegt. Ég held við höfum komist vel frá þessum fyrstu leikjum,“ segir landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson og nokkuð sáttur við fyrstu tvo skyldusigra mótsins.

„Ég er ánægður með liðið og mér fannst við gera þetta vel. Strákarnir sýndu fagmennsku og einbeitingu eins og ég kallaði eftir. Kom smá kafli í fyrsta leiknum sem var ekki nógu góður en það slapp alveg. Framhaldið er erfiðara og skemmtilegra.“

Það er kórrétt hjá landsliðsþjálfaranum því í kvöld bíður leikur við Slóvena. Frábært lið sem náði fjórða sæti á ÓL á síðasta ári. Þetta er í raun fyrsti leikur í milliriðli og afar mikilvæg stig í boði.

„Það er hellingur sem þarf að varast þar. Mér finnst þeir vera frábært lið sem spilar skemmtilegan handbolta. Ég var mjög hrifinn af þeim á ÓL í sumar þar sem þeir náðu frábærum árangri,“ segir Snorri Steinn sem ber eðlilega mikla virðingu fyrir sterku liði.

„Það er mikið í gangi hjá þeim. Margir leikmenn og rúllað vel á liðinu. Það er hellingur sem við þurfum að fara yfir. Þetta er öðruvísi undirbúningur og reynir á alla að meðtaka þetta á sem stystum tíma.“

Klippa: Snorri: Slóvenía er með frábært lið

„Ég legg töluverða áherslu á varnarleikinn okkar fyrir leikinn því það er mikið í gangi hjá þeim og margir varíantar af mörgum kerfum. Ólíkir leikmenn inn á milli. Við munum fara yfir allt sem þarf og ég bæti við fundum ef við þurfum þess.“

Leikur Íslands og Slóveníu hefst klukkan 19.30 í kvöld og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×