Fótbolti

Arnar fer með Ís­land til Skot­lands

Sindri Sverrisson skrifar
Orri Steinn Óskarsson og félagar eru á leið til Skotlands í júní.
Orri Steinn Óskarsson og félagar eru á leið til Skotlands í júní. Vísir/Getty

Karlalandslið Íslands í fótbolta mun mæta Skotlandi í vináttulandsleik á Hampden Park í Glasgow þann 6. júní.

Knattspyrnusamband Íslands greindi frá þessu í dag en þetta er fyrsti vináttulandsleikurinn sem settur er á dagskrá eftir að Arnar Gunnlaugsson tók við sem landsliðsþjálfari.

Fjöldi þekktra leikmanna úr enska boltanum er í landsliði Skotlands og má þar nefna fyrirliðann Andrew Robertson, leikmann Liverpool, John McGinn úr Aston Villa og Scott McTominay sem seldur var frá Manchester United til Napoli í fyrra.

Fyrstu leikir Íslands undir stjórn Arnars verða við Kósovó í mars, í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar. Fyrri leikurinn er í Kósovó 20. mars og sá seinni 23. mars í Murcia á Spáni, vegna óviðunandi vallarmála á Íslandi.

Vegna þess að Ísland er í fjögurra liða riðli í undankeppni HM 2026, en ekki fimm liða riðli, er svo svigrúm fyrir vináttulandsleiki í júníglugganum. Nú er ljóst að leikið verður við Skota og KSÍ vinnur svo að því að festa niður annan vináttulandsleik í þeim glugga.

Arnar ætti því að hafa fengið fjóra leiki með landsliðinu áður en undankeppni HM hefst með leik við Aserbaídsjan á Laugardalsvelli 5. september. Ísland er einnig í riðli með Úkraínu og svo sigurliðinu úr einvígi Frakklands og Króatíu í 8-liða úrslitum Þjóðadeildarinnar sem leikin verða í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×