Handbolti

Aldrei í sögunni skorað eins fá mörk og gegn Viktori

Sindri Sverrisson skrifar
Slóvenar áttu ekki séns í Viktor Gísla Hallgrímsson í gærkvöld.
Slóvenar áttu ekki séns í Viktor Gísla Hallgrímsson í gærkvöld. vísir/Vilhelm

Þrátt fyrir að hafa spilað á ellefu heimsmeistaramótum þá hefur handboltalandslið Slóveníu aldrei skorað eins fá mörk og í gær, gegn Viktori Gísla Hallgrímssyni og íslenska varnarmúrnum.

Þetta kemur fram á heimasíðu alþjóða handboltasambandsins.

Ísland hélt Slóvenum í aðeins átta mörkum í fyrri hálfleik, og vann leik liðanna að lokum 23-18. Hvoru tveggja er met en Slóvenar höfðu minnst skorað 19 mörk í einum leik á HM, þegar þeir töpuðu 33-19 gegn Frökkum á HM 2007.

Slóvenía náði að skora á lokasekúndu fyrri hálfleiks og seinni hálfleiks, en engu að síður urðu mörk liðsins bara átján gegn ótrúlegu íslensku liði.

Viktor Gísli var að sjálfsögðu valinn maður leiksins en hann varði átján skot í leiknum, þar af eitt víti, eða helming þeirra skota sem hann fékk á sig. Íslenska vörnin fór einnig á kostum, með menn eins og Ými Örn Gíslason, Elvar Örn Jónsson, Aron Pálmarsson og Viggó Kristjánsson í stórum hlutverkum.

Slóvenar voru fyrst með á HM á Íslandi árið 1995 og eru eins og fyrr segir mættir á sitt ellefta heimsmeistaramót, en aldrei hefur þeim gengið eins illa að skora í einum leik. Þeir urðu í 10. sæti á mótinu fyrir tveimur árum, tveimur sætum fyrir ofan Ísland, og náðu sínum besta HM-árangri árið 2017 þegar þeir unnu til bronsverðlauna.

Slóvenar urðu í 6. sæti á EM fyrir ári síðan og komust í undanúrslit á Ólympíuleikunum í ágúst í fyrra, en munu þurfa að hafa mikið fyrir því að komast í 8-liða úrslitin á HM eftir tapið gegn Íslandi í gærkvöld. Ætla má að það hjálpi Íslandi ef Slóvenar ná í stig gegn Króatíu og/eða Egyptalandi í milliriðlakeppninni, en tvö efstu liðin í milliriðlinum komast í 8-liða úrslitin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×