Handbolti

„Þetta er miklu skemmti­legra“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Viggó stóð í ströngu gegn Slóvenum og spilaði gott sem allan leikinn.
Viggó stóð í ströngu gegn Slóvenum og spilaði gott sem allan leikinn. Vísir/Vilhelm

Viggó Kristjánsson var markahæstur í íslenska landsliðinu í sigri liðsins á Slóveníu í fyrrakvöld. Hann nýtur sín vel og hlakkar til leiksins við Egyptaland í kvöld.

Viggó spilaði nánast allan leikinn í bæði vörn og sókn en varnarleikurinn var sérlega góður. Hann naut sín vel í vörninni.

„Þetta var svakalega skemmtileg vörn að spila en auðvitað fór mikil orka hjá öllum leikmönnum í þessa vörn. Líkaminn mun örugglega finna eitthvað fyrir því en við erum að gera allt sem við getum til að endurheimta vel,“ segir Viggó.

Viggó Kristjánsson þegar markvörður Slóveníu gaf honum einn á lúðurinn í hraðaupphlaupinu. Markvörðurinn sparkaði í Viggó í kjölfarið.Vísir/Vilhelm

Viggó lenti saman við markvörð Slóvena í leiknum en mörgum til furðu ákváðu dómarar leiksins ekki að líta á skjáinn þó hann hafi virst sparka í okkar mann.

„Ég á eftir að sjá þetta aftur. Ég eiginlega hoppaði alveg ofan og hann örugglega eitthvað ósáttur við það. En mér fannst hann sparka í mig þegar ég stend upp,“ segir Viggó um atvikið.

Klippa: Sammála Óla Stef og fagnar stærra hlutverki

Hlutverk Viggós hefur verið töluvert stærra í ár en á síðustu mótum sökum meiðsla Ómars Inga Magnússonar sem hefur átt hægri skyttu stöðuna í liðinu. Viggó nýtur meiri ábyrgðar.

„Þetta er hlutverk sem mér líður vel í og hef spilað síðustu ár hjá mínu félagsliði. Það er kúnst að koma inn á í leikjum, það er auðveldara að byrja leiki, það er ekkert grín að koma inn á í jöfnum leikjum,“

„Þetta er miklu skemmtilegra og maður finnst maður stærri partur af þessu. Það er bara gaman, ég kvarta ekki yfir því,“ segir Viggó.

Viðtalið má sjá í heild í spilaranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×