Á vef Veðurstofunnar segir að það verði dálítil úrkoma af og til og hiti um frostmark en bjartviðri á norðan- og austanverðu landinu og fremur kalt, eins til þrettán stiga frost.
„Úrkomumeira á suður helmingi landsins á morgun, fimmtudag og með hita nálægt frostmarki má búast við að úrkoman geti fallið sem rigning, slydda eða snjókoma. Næst ströndinni ætti þetta að vera lengst af rigning en eftir því sem lengra inná land er haldið færist úrkoman yfir í slyddu eða snjókomu. Fyrir norðan ætti að vera þurrt lengst af og jafnvel að það hláni þar sums staðar að auki.
Einna hlýjast ætti að vera suðaustanlands, hiti að 5-6 stigum, en svalara annars staðar. Fjallvegir sunnantil á landinu gætu sumir hverjir orðið erfiðir yfirferðar, svo um að gera að fylgjast með færð fyrir þá sem hyggja að ferðir milli landshluta,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Austan og suðaustan 5-15, hvassast syðst. Slydda, rigning eða snjókoma með köflum og hiti kringum frostmark. Að mestu þurrt fyrir norðan og frost víða 0 til 7 stig.
Á föstudag: Austlæg eða breytileg átt með snjó- eða slydduéljum í flestum landshlutum, en hvassari og úrkomumeira um tíma norðaustantil. Frost 2 til 8 stig, en hiti nálægt frostmarki norðaustanlands.
Á laugardag og sunnudag: Norðaustanátt, fremur hæg. Dálítil él í flestum landshlutum. Frost 0 til 8 stig, kaldast inn til landsins.
Á mánudag: Útlit fyrir norðlæg eða breytileg átt og víða þurrt. Frost um allt land, mest inn til landsins.
Á þriðjudag: Útlit fyrir hæga breytileg átt með björtu og köldu veðri.