Innlent

Efnaslys varð í grunn­skóla í Reykja­nes­bæ

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Efnakafari að störfum í Háaleitisskóla í dag.
Efnakafari að störfum í Háaleitisskóla í dag. Brunavarnir Suðurnesja

Brunavörnum Suðurnesja barst útkall um hádegisleytið í dag vegna efnaslys sem orðið hafði í grunnskóla í Reykjanesbæ. Brúsi með ertandi efni hafði lekið á kaffistofu kennara og var álma byggingarinnar rýmd á meðan efnakafarar glímdu við eitrið.

Útkallið barst frá starfsmönnum Háaleitisskóla í Ásbrú í Reykjanesbæ þegar korter vantaði í hádegi og þá hafði brúsi með ertandi hreinsi efni á kaffiaðstöðu kennara gefið sig með þeim afleiðingum að heilsuspillandi var að draga þar andann. Efnið hafði þá lekið um gólf byggingarinnar.

Útkallið barst skömmu fyrir hádegi í dag.Brunavarnir Suðurnesja

Rúnar Eyberg Árnason, varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja, segir að efnið sem um ræðir hafi verið mjög ertandi fyrir slímhúð og augu.

Ein álma skólans var rýmd og voru tveir efnakafarar sendir út til að þynna efnið út með vatni og hreinsa upp ásamt því að innsigla efnabrúsann sem brást, ásamt öðrum sem farið var á að sjá, í eiturefnapoka.

Koma þurfti brúsanum sem lak fyrir í spilliefnapoka og fjarlægja hann af vettvangi.Brunavarnir Suðurnesja

Rúnar segir að aðgerðir hafi gengið vel og að slökkviliðsmennirnir hafi verið farnir af vettvangi um hálftvö. Þó tekur hann fram að aldrei sé farið geyst þegar eiturefni eru annars vegar.

„Þá er allt gert í rólegheitunum og öryggi er númer eitt, tvö og þrjú,“ segir hann.

Sú álma skólans sem útsett var fyrir eiturgufunum var loftræst og segir Rúnar að við taki ítarleg hreinsun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×