Okkar menn fögnuðu vel með stuðningsmönnum landsliðsins eftir leikinn í gær og „Ég er kominn heim“ ómaði í Arena Zagreb.
Gleðin var ekki minni inni í klefa eftir leikinn eins og sást á myndbandi sem HSÍ birti á samfélagsmiðlum sínum. Strákarnir sungu Ísland á HM við lagið „Freed from Desire“ með ítölsku söngkonunni Gala.
Sigurinn í gær kom Íslandi í góða stöðu í baráttunni um sæti í átta liða úrslitum HM. Í fréttinni hér fyrir neðan er farið ítarlega yfir möguleika Íslands í milliriðlinum.
Ísland hefur unnið alla fjóra leiki sína á heimsmeistaramótinu með samtals 42 marka mun. Næsti leikur Íslendinga er gegn heimaliði Króata annað kvöld. Með sigri í leiknum tryggir íslenska liðið sér sæti í átta liða úrslitum.
Dagur Sigurðsson stýrir liði Króatíu sem rúllaði yfir Grænhöfðaeyjar í gær, 24-44. Króatar eru með fjögur stig í milliriðlinum líkt og Slóvenar og Egyptar.