Upphaflega var stefnt að því að framtakssjóðurinn yrði um 20 til 30 milljónir sterlingspunda að stærð – að lokum reyndist hann vera ríflega 30 milljónir punda – og er sjóðurinn því yfir efri mörkum þess sem var ráðgert. Alls eru meira en fimmtíu fjárfestar í sjóðnum, þar á meðal er Kvika banki sjálfur.
Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri Kviku eignastýringar, segir með stofnun Hörpu-sjóðsins sé verið að nýta reynslu Kviku af breska markaðnum og halda áfram að bjóða upp á áhugaverða fjárfestingarkosti fyrir viðskiptavini.
„Við teljum að hér séu spennandi tækifæri til að styðja við og auka verðmætasköpun í ört vaxandi fyrirtækjum sem búa yfir skýrum vaxtarhorfum. Við erum afar ánægð með hve mikill áhugi hefur verið á sjóðnum, enda hefur Kvika lengi unnið markvisst að því að byggja upp virk tengsl við innlenda og erlenda fjárfesta,“ er haft eftir honum í tilkynningu.
Með samstarfi Kviku eignastýringar og Kviku Securities í Bretlandi er sjóðnum tryggt öflugt tengslanet og fagþekking á breska markaðinum.
Á meðal þeirra sem skipa stjórn Hörpu-sjóðsins er Ágúst Guðmundsson, fjárfestir og annar stofnanda Bakkavarar en aðrir stjórnarmenn eru Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, og Guðjón Reynisson, fyrrverandi forstjóri Hamleys í London, stjórnarmaður í Kviku og stjórnarformaður Festi.
Við birtingu uppgjörs Kviku á þriðja fjórðungi í nóvember, eins og Innherji fjallaði um, var sagt frá því að Kvika eignastýring væri að undirbúa markaðssetningu á nýjum framtakssjóði í samstarfi við dótturfélagið Kviku Securities Ltd. (KSL) og væri búinn að fá leyfi frá eftirlitsstofnunum í Bretlandi.
Stofnun Hörpu er sögð byggja á árangri Kviku í framtaksfjárfestingum í Bretlandi, að því er segir í tilkynningu, en á síðastliðnum árum hefur bankinn, ásamt samstarfsaðilum og meðfjárfestum, tekið þátt í verkefnum þar sem lögð hefur verið áhersla á fjárfestingar í smærri fyrirtækjum með mikla vaxtarmöguleika og tækifæri á framúrskarandi ávöxtun.
„Með samstarfi Kviku eignastýringar og Kviku Securities í Bretlandi er sjóðnum tryggt öflugt tengslanet og fagþekking á breska markaðinum. Markmið sjóðsins er að hámarka ávinning fyrir hluthafa sína og skapa jákvæð áhrif á þau fyrirtæki sem fjárfest er í, m.a. með bættri stjórnarhæfni, auknum sveigjanleika í rekstri og markvissri markaðssókn,“ segir í tilkynningunni.
Mikill viðsnúningur hefur orðið á starfsemi Kviku í Bretlandi á síðustu misserum. Eftir nokkurt tap á starfseminni þar í landi á árinu 2023 skilaði reksturinn skilað um 900 milljóna hagnaði á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra. Tekjurnar jukust þannig um nærri 1.200 milljónir miðað við sama tímabil árið áður og námu samtals 1.960 milljónum.