Erlent

Greiddi konu sjö milljónir vegna á­sakana

Samúel Karl Ólason skrifar
Pete Hegseth verður líklega varnarmálaráðherra Bandaríkjanna í dag.
Pete Hegseth verður líklega varnarmálaráðherra Bandaríkjanna í dag. AP/Alex Brandon

Pete Hegseth, sjónvarpsmaðurinn og uppgjafahermaðurinn sem Donald Trump hefur tilnefnt í embætti varnarmálaráðherra, greiddi konu sem sakaði hann um kynferðisbrot árið 2017 fimmtíu þúsund dali. Það samsvarar um sjö milljónum króna.

Útlit er fyrir að tilnefning Hegseths verði samþykkt af öldungadeildinni seinna í dag en atkvæðagreiðsla vegna formsatkvæða í tengslum við tilnefningu hans, vegna þess að Demókratar eru að draga fæturna á málinu, var samþykkt með 51 atkvæði gegn 49. Tveir þingmenn Repúblikanaflokksins, þær Lisa Murkowski og Susan Collins greiddu atkvæði með Demókrötum.

Hegseth hefur undanfarin ár starfað hjá sjónvarpsstöðinni Fox og verið einn af stjórnendum þáttarins Fox and Friends um helgar. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið tíður gestur í Fox and Friends á undanförnum árum og myndað vinabönd við Hegseth.

Hegseth er uppgjafahermaður en er að öðru leyti talinn frekar reynslulaus fyrir embætti varnarmálaráðherra.

Varnarmálaráðuneytið fær meira en átta hundruð milljarða dali á ári og undir ráðuneytinu starfa um 1,3 milljónir hermanna og 1,4 milljónir í þjóðvarðliði, varaliði og óbreyttir borgarar um heiminn allan.

Sjá einnig: Tilnefning Hegseths samþykkt úr nefnd

Hegseth hefur staðið frammi fyrir ásökunum um áfengisdrykkju úr hófi og verið gagnrýndur fyrir ítrekuð neikvæð ummæli um konur í hernum. Hegseth hefur einnig hvatt til þess að náða hermenn sem sakfelldir hafa verið fyrir stríðsglæpi. Það gerði Trump árið 2019, þegar hann náðaði þrjá menn sem höfðu verið sakaði og dæmdir fyrir stríðsglæpi.

Sjá einnig: Sat fyrir svörum vegna áfengisdrykkju og viðhorfa til kvenhermanna

Sömuleiðis var hann fyrr í ferlinu spurður út í áðurnefndar ásakanir um kynferðisbrot, ítrekað framhjáhald og það að hann keyrði tvö góðgerðafélög tengd málefnum uppgjafahermanna í þrot.

Áður en atkvæðagreiðslan fór fram í gær biðlaði Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni, til Repúblikana og spurði þá hvort þeir gætu í alvörunni haldið því fram að Hegseth væri hæfur í starfið.

„Ég við samstarfsfélaga mína að hugsa sig vel um: Af öllu fólki sem við gætum haft sem varnarmálaráðherra, er Pete Hegseth virkilega sá besti sem er í boði?“ spurði Schumer samkvæmt Washington Post.

„Í alvörunni, þið vitið að hann er það ekki. Ég bið ykkur, svarið mér þessu: Haldið þið að hann sé besti maðurinn í þetta starf?“

Lögmaðurinn segir Hegseth fórnarlamb

Hegseth var ásakaður af konunni eftir að hann ávarpaði samkomu Repúblikana í Monterey í Kaliforníu en í yfirlýsingu til AP fréttaveitunnar segir lögmaður Hegseths að kynmök þeirra hafi verið með vilja beggja og að konan sem fór nokkrum dögum síðar til lögreglunnar hafi farið á eftir Hegseth.

Lögmaðurinn segir Hegseth hafa greitt konunni nokkrum árum eftir að lögreglan lauk rannsókn sinni, því hann hafði áhyggjur af því að hún ætlaði að höfða mál gegn honum og óttaðist hann að missa starf sitt hjá Fox News.

Timothy Parlatore, lögmaðurinn, segir Hegseth hafa verið fórnarlamb fjárkúgunar.

Sakaður um hrottaskap í garð eiginkonu

Fyrrverandi mágkona Hegseths steig fram á mánudaginn og lagði fram eiðsvarna yfirlýsingu til öldungadeildarinnar, þar sem hún lýsti Hegseth sem mjög drykkfelldum og sagði hann ítrekað sofna vegna áfengisneyslu.

Hún sagði hann hafa sýnt hrottaskap gagnvart fyrrverandi eiginkonu hans, þeirri seinni sem hann var giftur árið 2017, og að hann hafi ítrekað látið rasísk ummæli falla kringum annað fólk.

Repúblikanar sem höfðu áður lýst yfir efasemdum um tilnefningu Hegseths sögðu í gær að yfirlýsing mágkonunnar vera sögusagnir og örvæntingarfull brögð Demókrata.


Tengdar fréttir

Vill sýna þinginu hver ræður

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur á dögunum opinberað hverja hann ætlar að tilnefna í nokkur mikilvæg embætti í ríkisstjórn sinni. Þrjár af þessum tilnefningum eru umdeildari en aðrar og er Trump sagður mana þingmenn Repúblikanaflokksins í öldungadeildinni til að standa í vegi sér.

Stefnir í hreinsanir innan Pentagon

Trump-liðar hafa skrifað drög af forsetatilskipun um að stofna „stríðsmanna-nefnd“ sem ætlað yrði að fara yfir störf bandarískra her- og flotaforingja og leggja til að reka þá sem þykja ekki störfum sínum hæfir. Nefndin yrðu skipuð fyrrverandi yfirmönnum í herafla Bandaríkjanna sem myndu senda tillögur til Trumps, sem hefur sagt þörf á að reka „woke“ bandaríska herforingja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×