Enski boltinn

Joey Barton sparkaði í höfuð eigin­konu sinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joey Barton mætir fyrir rétt í Westminister í gær.
Joey Barton mætir fyrir rétt í Westminister í gær. getty/Lucy North

Fótboltamaðurinn fyrrverandi, Joey Barton, ýtti eiginkonu sinni og sparkaði svo í höfuð hennar á heimili þeirra fyrir þremur árum.

Barton mætti fyrir rétt í gær en hann er ákærður fyrir að hafa beitt eiginkonu sína ofbeldi sumarið 2021. Hann neitar sök í málinu.

Atvikið átti sér stað á heimili þeirra í Kew, London, í júní 2021. Barton og eiginkona hans, Georgia, höfðu verið að drekka með tveimur öðrum pörum á meðan börn þeirra sváfu á efri hæðinni.

Rifrildið milli Barton-hjónanna hófst þegar Joey hótaði að slást við mág sinn og tengdaföður.

Í réttarsal í gær var því lýst hvernig Barton hrinti Georgiu og sparkaði svo í höfuð hennar. Vinur þeirra reyndi að stöðva Barton en hann stjakaði við honum og sagði honum að vanvirða sig ekki.

Georgia hringdi á lögregluna eftir að Barton réðist á hana. Símtalið var spilað fyrir rétti í gær. Þar sagði hún að þetta væri í fyrsta sinn sem Barton hefði beitt hana ofbeldi.

Barton hefur áður fengið dóma fyrir líkamsárás. Hann sat meðal annars inni í 74 daga 2008. Árið á undan réðist hann á samherja sinn hjá Manchester City, Ousmane Dabo, og fékk fjögurra mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir.

Eftir að ferlinum lauk hefur Barton starfað sem knattspyrnustjóri með misjöfnum árangri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×