Enski boltinn

Amorim segist nota 63 ára mark­mannsþjálfara sinn frekar en Ras­h­ford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruben Amorim ræðir Marcus Rashford áður en hann kom inn á völlinn í leik með Manchester United í lok nóvember síðastliðinn.
Ruben Amorim ræðir Marcus Rashford áður en hann kom inn á völlinn í leik með Manchester United í lok nóvember síðastliðinn. Getty/Justin Setterfield

Ruben Amorim, þjálfari Manchester United, svaraði hreint út spurningu um Marcus Rashford og fjarveru hans á blaðamannafundi, eftir 1-0 sigur United á Fulham í gær.

Það fer ekkert á milli mála að ástæðan fyrir fjarveru Rashford er sú að hann leggur sig ekki fram á æfingum liðsins. Amorim málar í það minnsta þá mynd af enska framherjanum.

Rashford hefur ekki spilað með United síðan um miðjan desember. Hann talaði þá um að hann væri tilbúinn fyrir nýja áskorun á ferli sínum.

Rashford var enn á ný utan hóps í leiknum í gær. Það er enn búist við því að hann fari á láni áður en glugginn lokar. Á meðan fær hann ekki að taka þátt í leikjum liðsins.

„Það er alltaf sama ástæðan fyrir þessu. Ástæðan eru æfingarnar og hvernig ég sé það fyrir mér að fótboltamaður eigi að haga sér,“ sagði Ruben Amorim.

„Þetta snýst um æfingarnar, hvern einasta dag og hvert litla smáatriði. Ef hlutirnir breytast ekki þá mun ég ekki breytast. Þetta er það sama fyrir alla leikmenn. Ef þeir skila öllu sínu, ef þeir gera það rétta, þá get ég notað alla leikmenn,“ sagði Amorim.

„Þið sjáið það á bekknum okkar í dag. Þar vantaði tilfinnanlega meiri hraða til að geta breytt leiknum. Ég vil það frekar. Ég mun frekar setja Vital [63 ára markmannsþjálfari liðsins] inn áður en ég nota leikmann sem leggur sig ekki fram á hverjum degi. Það mun ekki breytast hjá mér,“ sagði Amorim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×