Enski boltinn

„Cole, Pep var að spila með þig“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cole Palmer ræðir hér brosandi við Pep Guardiola eftir leikinn um helgina.
Cole Palmer ræðir hér brosandi við Pep Guardiola eftir leikinn um helgina. Getty/Michael Regan

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, vildi mikið tala við fyrrum lærisvein sinn út á vellinum eftir leikinn hjá City og Chelsea um helgina og það fyrir framan allar myndavélarnar. Manchester United goðsögnin Gary Neville var ekki hrifinn.

Cole Palmer fékk ekki mikið að spila hjá Manchester City á sínum tíma. Hann vildi fara og félagið seldi hann til Chelsea þar sem Palmer hefur slegið í gegn.

Palmer náði sé ekki á strik í leik á móti gömlu félögunum um helgina og Chelsea tapaði leiknum.

Eftir leikinn fór Guardiola til Palmer og talaði við hann út á velli. Gary Neville vildi ræða þetta á Sky Sports.

„Ég vil segja eitt um Cole Palmer. Hann var að tala við Pep Guardiola út á velli strax eftir leikinn. Hann var brosandi,“ sagði Gary Neville.

„Pep Guardiola gerir þetta. Cole, Pep var að spila með þig. Hann er að spila með þig þarna,“ sagði Neville.

„Hann gerði ekki nógu mikið út á vellinum í þessum seinni hálfleik. Hann er stórkostlegur leikmaður, alveg frábær,“ sagði Neville.

„Ég verð að vekja athygli hans á einu. Þessir stuðningsmenn Chelsea sem ferðuðust hingað í dag voru þrjú eða fjögur þúsund. Þeir vildu sjá betri frammistöðu en þetta,“ sagði Neville.

„Þeir vilja ekki sjá þig brosandi ræða málin á léttu nótunum við stjóra hins liðsins í lok leiks. Ég tel mig ekki vera af gamla skólanum hér,“ sagði Neville en það má sjá hann ræða þetta hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×