Haukur var í byrjunarliði Íslands í gær og átti erfitt uppdráttar. Hann klikkaði á báðum skotunum sínum, tapaði boltanum einu sinni og var tekinn af velli um miðjan fyrri hálfleik. Eftir það lagaðist sóknarleikur íslenska liðsins umtalsvert.
„Þegar ég sá þetta, að hann væri að fara að byrja leikinn hélt ég að hann myndi rífa sig upp, vitandi það að það væri deyfð yfir þessu, það þyrfti einhver að taka af skarið. Nú get ég stimplað mig inn og sagt að ég hefði kannski átt að fá að spila meira í þessu móti,“ sagði Ásgeir Örn í Besta sætinu, hlaðvarpi íþróttadeildar Sýnar.
„Hann gerði það ekki og það sama með Þorstein Leó [Gunnarsson]. Það gekk ekkert upp hjá honum. Það fær mann til að hugsa að kannski hefðu þeir mögulega ekkert hjálpað okkur, til dæmis á móti Króatíu.“
Einar tók við boltanum og ræddi um þá Hauk og Þorstein.
„Ég er þeirrar skoðunar að mér finnst að þessir strákar ættu að vera komnir í stærra hlutverk en þeir eru í dag. Það hefði mátt vera búið að búa til eitthvað hlutverk fyrir hann [Þorstein]. Það er ekki búið að gera það. Innkoman í dag [í gær] var hörmung en mér finnst ekki að það eigi að lita hans framtíð með þessu landsliði. Þetta er bara gaur sem getur nýst okkur ótrúlega vel,“ sagði Einar.
Flatneskja
„Ég hef hins vegar verulega áhyggjur af Hauki Þrastarsyni, ég verð að viðurkenna það. Maður er búinn að bíða og bíða og þetta er bara eins og einhver Fóstbræðraskets: ooooog bíða, ooooog bíða. Þetta er flatt. Hann er alltaf á sama tempói. Allar hreyfingarnar hans. Það eru engar hraðabreytingar. Skotin hans eru frekar flöt. Það er eins og það vanti einhvern kraft,“ sagði Einar áður en Ásgeir Örn tók við.
„Ef hann ætlar svo ekki að spila vörn heldur er þetta helvíti þungt. Þá erum við með mikla breidd þarna og helvíti erfitt að koma sér inn í róteringuna.“
Verður að spila meira
Einar er þó ekki búinn að gefast upp á Hauki sem hefur verið þjakaður af meiðslum undanfarin ár.
„Mér finnst Haukur Þrastarson frábær í handbolta. Ákvarðanirnar sem hann tekur eru ekki slæmar. Skotin sem er að taka eru allt í lagi ákvarðanir en þetta eru bara léleg skot. Hann er í basli maður á mann. Það er ekkert hægt að gefast upp á honum. Ég vona að hann komi upp. Hann hefur ekkert sýnt okkur það. Það er ekkert bullandi tilefni til bjartsýni, því miður,“ sagði Einar.
Ásgeir Örn benti einnig á að Haukur væri ekki spila nógu mikið með sínu félagsliði, Dinamo Búkarest.
„Hann þarf að fara í lið þar sem hann er aðalmaðurinn og er að spila fimmtíu mínútur í leik. Þetta er bara korter og korter og hann er bara að snerta parketið í örfáar mínútur í leik,“ sagði Ásgeir Örn.
Hlusta má á Besta sætið í spilaranum hér fyrir ofan og hér fyrir neðan. Þáttinn má finna á öllum helstu hlaðvarpsveitum.