Rubio fundaði með forsetanum Nayib Bukele í gær og lofaði aðgerðir hans gegn gengjum og ofbeldi í El Salvador; aðgerðum sem hafa borið árangur en verið gagnrýndar af mannréttindasamtökum.
Ráðherrann sagðist hafa rætt við Donald Trump Bandaríkjaforseta eftir fundinn með Bukele og að stjórnvöld væru afar þakklát. Með boði sínu hefðu ráðamenn í El Salvador sýnt fordæmalaust vinarþel.
Ef marka má ummæli Rubio virðist standa til að flytja til El Salvador meðlimi gengja á borð við MS-13 og Tren de Aragua.
Sjálfur sagði Bukele á samfélagsmiðlum að stjórnvöld í El Salvador hefðu í raun boðið Bandaríkjamönnum að útvista fangelsismálum sínum. El Salvador myndi taka á móti og hýsa dæmda glæpamenn í „ofurfangelsum“ sínum, gegn gjaldi.
Áætlað er að um 75 þúsund einstaklingar hafi verið handteknir í El Salvador á grundvelli neyðarúrræða vegna gengjastarfsemi í landinu. Mannréttindasamtök hafa lýst yfir áhyggjum af þróun mála og segja hættu á því að verið sé að útrýma gengjaofbeldi með ofbeldi af hálfu ríkisins.