Vegna óviðunandi vallarmála á Íslandi þarf karlalandsliðið að spila mikilvægan heimaleik sinn við Kósovó í næsta mánuði erlendis. Leikurinn fer fram í Murcia á Spáni og fer miðasalan fram í gegnum spænska miðasöluvefinn Compralaentrada.
Miðarnir kosta þrjátíu evrur stykkið, eða um 4.400 krónur, en ofan á það bætist 1,09 evra í þjónustugjald eða tæplega 160 krónur.
Íslendingahólfin á vellinum eru sjö talsins sem stendur, og rúma á bilinu 121-425 áhorfendur. Alls rúma Íslendingahólfin 2.222 áhorfendur.
Alls rúmar Enrique Roca leikvangurinn, sem er heimavöllur Real Murcia, 31.179 manns í sæti og því ljóst að hægt er að fjölga hólfum ef eftirspurnin kallar á það.
Ísland og Kósovó eigast við í tveggja leikja einvígi um það hvort liðanna verður í B-deild næstu leiktíðar í Þjóðadeildinni, og hvort þeirra þarf að sætta sig við sæti í C-deild. Kósovó getur spilað heimaleiki sína í eigin landi og þar fer fyrri leikurinn fram fimmtudaginn 20. mars, en seinni leikurinn verður svo á Spáni sunnudaginn 23. mars.
Þetta verða fyrstu leikir Íslands undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar sem í síðasta mánuði var ráðinn landsliðsþjálfari eftir að Norðmaðurinn Åge Hareide hætti.