Yfir fjórar og hálf milljón laxa hefur drepist í sjókvíaeldi á hverju ári undanfarin þrjú ár. Árið 2022 drápust 4.755.000 laxar eða þeim var fargað í sjókvíaeldi í fjörðum landsins. Meginorsökin þá var svonefnd ISA-veira í fiskeldi á Austfjörðum. Árið eftir drápust fjórar og hálf milljónir laxa eða þeim var fargað, nú aðallega vegna lúsafaraldurs á Vestfjörðum.
Fiskum í sjókvíum hefur fjölgað nokkuð á þessu tímabili. Árið 2022 voru að meðaltali sextán milljónir fiska í sjó á mánuði en þeir voru orðnir tuttugu milljónir árið 2023. Í fyrra voru 21,5 milljónir fiska í sjó að meðaltali á mánuði.
Um 1,3 milljón drapst á Austfjörðum einum í nóvember og desember
Mestu afföllin urðu á Austfjörðum í lok árs. Í desember einum og sér drápust um 770.000 fiskar eða þeim var fargað í Fáskrúðsfirði, Berufirði og Reyðarfirði, þar af yfir 530.000 í Fáskrúðsfirði einum. Afföllin í nóvember námu um 590.000 fiskum. Í heildinni nam laxadauðinn í nóvember og desember meira en 1,3 milljónum fiskum, meira en fjórðungur heildardauðans fyrir allt árið.
Í skriflegu svari Matvælastofnunar við fyrirspurn Vísis kemur fram að rannsókn standi yfir á laxadauðanum á Austfjörðum. Það hafi að langmestu leyti verið seiði sem drápust við útsetningu og í kjölfar hennar. Ekki fengust frekari upplýsingar um rannsóknina á meðan henni er ekki lokið.
Forstöðumaður fiskeldisdeildar Matvælastofnunar sem rannsakar dauðan á Austfjörðum sagði RÚV í síðasta mánuði að þörf væri á strangari reglum vegna hans. Banna ætti að setja seiði í kvíar þegar sjávarhiti færi undir viss mörk. Talið er að seiði hafi drepist eftir að þau voru sett í kvíar vegna kulda í sjónum fyrir austan í nóvember og janúar.
Uppfært 7.2.2025 Í upphaflegum inngangi fréttarinnar misritaðist að MAST rannsakaði dauða fiska á Vestfjörðum. Það rétta er að rannsóknin beinist að miklum dauða laxa á Austfjörðum.