Þetta kemur fram í áliti sérfræðinga, sem ráðuneytið aflaði og verður birt klukkan eitt á vef stjórnarráðsins. Fjallað hefur verið um það undanfarið að Flokkur fólksins hafi þegið 240 milljónir í styrki frá ríkinu þrátt fyrir að vera ekki skráður sem stjórnmálaflokkur heldur félagasamtök.
Fleiri flokkar þáðu styrki þrátt fyrir að þeir hefðu enn ekki breytt skráningu sinni eftir að lögunum var breytt en Flokkur fólksins er sá eini sem er enn skráður sem félagasamtök. Forsvarsmenn hans hafa sagt að skráningunni verði breytt eftir landsfund í þessum mánuði.
„Það liggur auðvitað fyrir að framkvæmdin brást í ráðuneytinu þannig að eftirfylgni með því hverjir raunverulega ættu rétt á þessum greiðslum, uppfylltu skilyrði laganna, eftirfylgnin með því var ekki nógu góð,“ sagði Daði að loknum ríkisstjórnafundi rétt fyrir hádegi.
„Það er hins vegar mat þessara sérfræðinga að forsendur fyrir endurgreiðslukröfu séu ekki fyrir hendi og ástæðan er sú að það í fyrsta lagi gengi gegn markmiðum laganna að styrkja lýðræðisleg stjórnmálasamtök á Íslandi, að ráðuneytið sinnti ekki sínum leiðbeiningarskyldum gagnvart þessum aðilum og ætla mætti af framkvæmd laganna að þetta atriði skipti ekki máli.“