Innlent

Starfs­maður skemmti­staðar grunaður um líkams­árás

Lovísa Arnardóttir skrifar
Lögreglan rannsakar líkamsárás í miðbænum í nótt. Myndin tengist málinu ekki beint, er úr safni.
Lögreglan rannsakar líkamsárás í miðbænum í nótt. Myndin tengist málinu ekki beint, er úr safni. Vísir

Starfsmaður skemmtistaðar í miðborg Reykjavíkur er grunaður um líkamsárás. Málið er í rannsókn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fjallað er um málið í dagbók lögreglunnar en ekki koma fram nánari lýsingar. Ekkert kemur fram um ástand þess sem ráðist var á. 

Í dagbók lögreglu kemur einnig fram að alls hafi verið 71 mál bókað í kerfi lögreglunnar frá klukkan 17 í gær og til fimm í nótt. Sjö gisti nú í fangageymslu.

Í yfirliti lögreglunnar er fjallað um nokkurn fjölda einstaklinga sem lögreglan hafði afskipti af vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.

Þá þurfti lögreglan í tvígang að hafa afskipti af sama manninum sem var að aka bílnum sínum en hafði verið sviptur ökuleyfi. Hann á yfir höfði sér sekt vegna málsins.

Einn var handtekinn fyrir að stela verkfærum á byggingarsvæði og einum ekið heim vegna ofurölvunar miðsvæðis í Reykjavík auk þess sem tilkynnt var um innbrot í Breiðholti.

Þá var lögreglu tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir í Árbænum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×