Fótbolti

Panathinaikos mætir Víkingum með tvo tap­leiki á bakinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Sverrir Ingi Ingason vonast til að gengi liðsins snúist við í næsta leik gegn Víkingum. 
Sverrir Ingi Ingason vonast til að gengi liðsins snúist við í næsta leik gegn Víkingum.  Getty/Franco Arland

Panathinaikos tapaði 2-0 gegn Aris á útivelli í grísku úrvalsdeildinni. Sverrir Ingi Ingason stóð vaktina í vörninni, líkt og í bikarleiknum fyrr í vikunni sem tapaðist 1-0 gegn Olympiacos. Panathinaikos mætir Víkingi í umspili Sambandsdeildarinnar á fimmtudag.

Panathinaikos fékk mörkin á sig sitt hvoru megin við hálfleikinn, Kike Saverio skoraði á 43. mínútu og Loren Moron bætti svo öðru við af vítapunktinum á 50. mínútu eftir að Nemanja Maksimovic, miðjumaður Panathinaikos, braut af sér.

Panathinaikos er í þriðja sæti grísku úrvalsdeildarinnar, fimm stigum frá toppliði Olympiacos. Næstu tvo fimmtudaga mun gríska liðið leika við Víking í umspili um sæti í sextán liða úrslitum Sambandsdeildarinnar.

Önnur úrslit Íslendinga erlendis

Á Spáni var Orri Steinn Óskarsson í byrjunarliði Real Sociedad, sem vann 2-1 gegn Espanyol í 23. umferð La Liga.

Orri Steinn Óskarsson var tekinn af velli skömmu eftir að Espanyol jafnaði. Getty/Octavio Passos

Sheraldo Becker tók forystuna fyrir Sociedad strax á fyrstu mínútu. Javier Puado jafnaði svo fyrir Espanyol í upphafi seinni hálfleiks, en á 84. mínútu skoraði Brais Méndez sigurmarkið fyrir Sociedad.

Orri var þá farinn af velli, honum var skipt út af skömmu eftir jöfnunarmarkið, í þrefaldri skiptingu á 62. mínútu fyrir Mikel Oyarzabal.

Á Ítalíu var Þórir Jóhann Helgason í byrjunarliði Lecce sem gerði 0-0 jafntefli við Bologna, en hann þurfti því miður að víkja af velli vegna meiðsla eftir áttatíu mínútna leik. 

Þórir Jóhann Helgason fór meiddur af velli eftir áttatíu mínútur. Franco Romano/NurPhoto via Getty Images



Fleiri fréttir

Sjá meira


×