Liverpool er með sex stiga forskot á Arsenal á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og leik til góða sem liðið leikur í kvöld gegn Everton á Goodison Park en um er að ræða síðasta grannaslag liðanna á þeim velli þar sem að Everton er við það að færa sig yfir á nýjan og glæsilegan leikvang.
Beri Liverpool sigur úr býtum í kvöld þýðir það að liðið verður með níu stiga forskot á toppi deildarinnar, Carragher segir að með sigri verði Liverpool komið með aðra höndina á Englandsmeistaratitilinn.
„Níu stiga forysta og fjórtán leikir eftir væri mikið forskot miðað við spilamennsku Liverpool á tímabilinu. Ef þeir vina mun það sálfræðilega veita leikmönnum liðsins mikinn slagkraft og á sama tíma skaða Arsenal. Ég er ekki viss um að margir hjá Arsenal myndu þá trúa því að þeir gætu komið til baka úr því.“

Liverpool er á sínu fyrsta tímabili undir stjórn Hollendingsins Arne Slot og það gengur vel. Liðið féll þó nokkuð óvænt úr leik gegn B-deildar liði Plymouth Argyle í enska bikarnum um nýliðna helgi en er komið í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar, úrslitaleik enska deildarbikarsins og eins og fyrr sagði á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með þægilegt forskot sem gæti orðið enn betra í kvöld.