Handbolti

„Mátt kvarta ef þú ert með ein­hverja hug­mynd til að leysa vanda­málið“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jón hefur tilkynnt framboð til formanns HSÍ.
Jón hefur tilkynnt framboð til formanns HSÍ.

Jón Halldórsson ætlar að bjóða sig fram í formannsstól HSÍ. Hann telur nauðsynlegt að sameina hreyfinguna og horfa björtum augum á framtíðina. Rætt var við Jón í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöldi.

Jón hefur verið formaður handknattleiksdeildar Vals í þónokkur ár og með mikla reynslu á þeim vettvangi. Hann er fyrsti frambjóðandi sem gefur kost á sér fyrir ársþing HSÍ 5. apríl næstkomandi. Guðmundur B. Ólafsson hefur verið formaður HSÍ undanfarin tólf ár en tilkynnti á fimmtudag að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Formaður er kosinn til tveggja ára í senn.

„Ég hef alltaf haft trú á því að einn plús einn geti orðið þrír og það er svona það fyrsta hjá mér í þessu ferli. Svo eru þessir grunnhlutir eins og fjárhagur og rekstur sambandsins sem er flókinn og erfiður. Þetta er ekkert bara HSÍ heldur bara með alla íþróttahreyfinguna að fá fjármuni inn í hreyfingarnar. Við fáum peninga frá afrekssjóð og það eru að koma inn aukapeningar þar en við þurfum að sækja enn meiri pening,“ segir Jón og heldur áfram.

„Mitt mat er að við þurfum meiri aðstoð frá ríki og sveitarfélögum en við erum líka háð styrkjum fyrirtækja.“

Nokkur erfið mál

Jón segir að orðræðan í kringum sambandið hafi verið of neikvæð undanfarin misseri.

„Það eru búin að koma upp nokkur erfið mál eins og til dæmis sjónvarpsmálin okkar sem hafa verið sem hafa verið svolítið erfið. Við förum af Sýn og yfir í Handboltapassann sem gekk brösuglega til að byrja með en er miklu betra núna og útbreiðslan þar að aukast. Svo eru alltaf svona hitamál eins og ég kringum landsliðsþjálfaramál og fleira en við ætlum að fara horfa fram á veginn og hætta að kíkja í baksýnisspegilinn,“ segir Jón og heldur áfram.

„Það er alltaf hægt að fara til baka og hægt að skoða hvað væri hægt að gera betur. En ég hef alltaf haft það sem reglu í lífinu mínu og hjá fyrirtækinu mínu sem ég stjórna er að þú mátt kvarta ef þú ert með einhverja hugmynd til að leysa vandamálið,“ segir Jón en hægt er að horfa á viðtalið hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×