Innlent

Ráðist á bif­reiðar með spörkum og hamri

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla hafði meðal annars afskipti af ökumanni sem ók beint í veg fyrir lögreglubifreið.
Lögregla hafði meðal annars afskipti af ökumanni sem ók beint í veg fyrir lögreglubifreið. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af tveimur mönnum í aðskildum málum í gærkvöldi og nótt sem sýndu ógnandi hegðun. Annar hafði ráðist á bifreið með hamri.

Þegar lögregla kom á vettvang ógnaði viðkomandi lögreglumönnum, öskraði að þeim og neitaði að gera grein fyrir sjálfum sér. Maðurinn var handtekinn, fluttur á lögreglustöð og tekin af honum skýrsla.

Í hinu tilvikinu var um að ræða mann sem hafði sýnt að sér ógnandi hegðun í miðborginni með því að öskra á fólk og sparka í bifreiðar. Sá var sömuleiðis handtekinn og tekin af honum skýrsla.

Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni, meðal annars tveir ökumenn sem höfðu verið réttindalausir frá 2001 annars vegar og 2007 hins vegar. Var þeim sagt að það væri löngu tímabært að endurnýja ökuskírteinið.

Þá var einn stöðvaður eftir að hann ók beint í veg fyrir lögreglubifreið í hringtorgi en sá hafði hreinlega aldrei öðlast ökuréttindi. Þrír voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum.

Lögreglu barst einnig tilkynning um innbrot í geymslur í umdæminu Grafarvogur/Mosfellsbær/Árbær og er það mál í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×