Körfubolti

Slagur um stól for­manns KKÍ

Sindri Sverrisson skrifar
Kjartan Freyr Ásmundsson er í dag formaður Íslensks toppkörfubolta.
Kjartan Freyr Ásmundsson er í dag formaður Íslensks toppkörfubolta. Vísir/Bjarni

Kjartan Freyr Ásmundsson, formaður Íslensks toppkörfubolta (ÍTK), tilkynnti í dag um framboð til formanns Körfuknattleikssambands Íslands. Þar með er ljóst að tveir menn koma til greina í kjörinu.

Guðbjörg Norðfjörð hættir sem formaður KKÍ á komandi ársþingi, sem fram fer 15. mars, en hún tók við af Hannesi S. Jónssyni á miðju kjörtímabili þegar hann steig að fullu yfir í starf framkvæmdastjóra sambandsins.

Fresturinn til þess að bjóða sig fram til formanns rennur út á miðnætti í kvöld. Það er því ekki alveg hægt að útiloka að fleiri bjóði sig fram en allt útlit er fyrir að formannsslagurinn verði á milli Kjartans og Kristins Albertssonar sem einnig hefur boðið sig fram.

Í tilkynningu frá Kjartani í dag segir að hann búi yfir gríðarmikilli reynslu af starfi í stjórnun sem sem starfsmaður, foreldri og sjálfboðaliði innan íþróttahreyfingarinnar og eins í körfubolta og öðrum íþróttum. Hann var um hríð meðal annars formaður körfuknattleiksdeildar Hauka.

EIns og fyrr segir er Kjartan í dag formaður Íslensks toppkörfubolta en það eru hagsmunasamtök félaga í efstu deildum karla og kvenna.

Kjartan segist í tilkynningu leggja helst áherslu á að efla enn frekar íslenskan körfubolta og þar séu fjölmörg tækifæri og áskoranir. Kjartan telur að íslenskur körfubolti sé um margt á réttri leið en leggja þurfi á næstu árum sérstaka áherslu á aukna tekjuöflun félaga og KKÍ, nútímavæða allt starfið með nokkurs konar gæða- og leyfiskerfi, eins og hann orðar það, ásamt því að hlúa að undirstöðum í barna- og unglingastarfi.

Auk kjörs um formann verður kosið um fjóra nýja stjórnarmenn á ársþinginu sem eins og fyrr segir verður haldið þann 15. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×