Tottenham var í heimsókn hjá Ipswich en lið Spurs vann sigur á Manchester United í síðasta deildarleik eftir erfitt gengi síðustu vikurnar. Lið Spurs virðist hins vegar vera að ná vopnum sínum því sigurinn gegn Ipswich í dag var öruggur.
Brennan Johnson var mættur aftur og skoraði tvö fyrstu mörk leiksins. Hann kom Tottenham í forystu á 19. mínútu og bætti öðru marki við sjö mínútum síðar. Omari Hutchinson minnkaði muninn fyrir heimamenn á 36. mínútu en á síðasta stundarfjórðungi leiksins gerði Spurs út um leikinn með mörkum frá Djed Spence og Dejan Kulusevski.
4-1 sigur staðreynd og Tottenham í 12. sæti en Ipswich áfram í vondum málum í botnbaráttunni.
Ekkert nema útisigrar
Þar er líka lið Wolves en aðeins tveimur stigum munaði á Wolves og Ipswich fyrir leiki dagsins. Úlfarnir nýttu sér hins vegar tap Ipswich mjög vel. Matheus Cunha skoraði eina mark leiksins á 36. mínútu en fimm mínútum áður hafði Illia Zabarnyi fengið rautt spjald í liði Bournemouth.
Úlfarnir héldu út og eru nú fimm stigum frá fallsæti en átta stig eru upp í lið West Ham í 16. sætinu.

Fulham og Crystal Palace mættust í Lundúnaslag á Craven Cottage. Þar voru það gestirnir í Crystal Palace sem höfðu betur. Þeir komust í 1-0 á 37. mínútu eftir sjálfsmark Joachim Andersen gegn sínum gömlufélgöum og í síðari hálfleiknum skoraði Daniel Munoz annað mark Palace og innsiglaði sigurinn.
Southampton og Brighton mættust í slagnum um Suður-England og þar var aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi. Joao Pedro kom Brighton í 1-0 á 23. mínútu og Georginio Rutter tvöfaldaði forystuna snemma í síðari hálfleik. Kaoru Mitoma og Jack Hinshelwood bættu tveimur mörkum við eftir það og tryggðu Brighton öruggan 4-0 sigur.

Brighton er í 8. sæti eftir sigurinn en lið Southampton eitt og yfirgefið á botni deildarinnar.