Fótbolti

Stefnir í al­vöru titilbaráttu á Spáni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Julian Alvarez fagnar hér öðru marka sinna í dag en hann kom til Atletico frá Manchester City í sumar.
Julian Alvarez fagnar hér öðru marka sinna í dag en hann kom til Atletico frá Manchester City í sumar. Vísir/Getty

Atletico Madrid lyfti sér á topp spænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu um stundarsakir að minnsta kosti eftir sigur á Valencia í dag. Barcelona getur náð toppsætinu á nýjan leik í kvöld.

Toppbaráttan í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu er æsispennandi. Fyrir leiki helgarinnar voru erkifjendurnir Barcelona og Real Madrid með jafn mörg stig á toppi deildarinnar og Atletcio Madrid í þriðja sætinu einu stigi á eftir.

Af þessum þremur liðum var það Atletico sem átti fyrsta leik í umferðinni. Liðið mætti í dag Valencia á útivelli og gerði heldur betur góða ferð á Mestalla leikvanginn og vann 3-0 sigur.

Julian Alvarez skoraði tvö fyrstu mörk gestanna í dag, það fyrra á 12. mínútu eftir sendingu Giuliano Simeone og það síðara eftir hálftímaleik eftir stoðsendingu Antoine Griezmann.

Undir lokin var það svo Angel Correa sem innsiglaði sigurinn með þriðja marki Atletico.

Lokatölur 3-0 og Atletico nú í toppsætinu en Barcelona nær því á nýjan leik vinni liðið sigur á Las Palmas á útivelli í kvöld. Real Madrid leikur síðan gegn Girona á heimavelli á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×