Martin er kominn á fullt aftur innan vallar og sýndi vel hvað í sér býr á dögunum í Laugardalshöllinni í fræknum sigri á Tyrkjum sem gulltryggði EM sætið. Frábær heimkoma þar sem að Martin náði ekki bara að leika listir sínar með íslenska landsliðinu, heldur einnig að heimsækja fjölskyldu sína.
Martin og unnusta hans, Anna María Bjarnadóttir, ákváðu að hún skyldi flytja hingað til lands með syni þeirra tvo og á meðan einbeitir Martin sér að því að koma sér í besta mögulega standið úti í Þýskalandi og það getur tekið á.
„Þetta er rosalega upp og niður. Auðvitað er rosalega erfitt að vera frá fjölskyldunni. Erfitt að vera í öllum þessum myndsímtölum. Sér í lagi upp á yngri son minn að gera, hann er að verða eins árs í næsta mánuði og á þessu tímabili ævinnar er hver dagur öðruvísi,“ segir Martin í samtali við íþróttadeild. „Það er erfitt oft á tíðum en á sama tíma ákváðum við konan að gera þetta svona í ár. Bara svo ég gæti líka verið að einbeita mér að líkamanum og reyna koma í mér besta stand sem völ er á.“
Og ljóst hversu mikið Martin reiðir sig á sína konu.
„Hún er náttúrulega búin að vera algjör klettur í þessu öllu saman. Ég gæti ekki gert það sem hún er að gera. Að vera ein með tvö börn og halda geðheilsu. Hún er kletturinn í okkar fjölskyldu og ég á henni mjög margt að þakka. Það var líka falleg stund að hafa þau öll á leiknum, knúsast eftir leik og að vera saman. Lífið sem atvinnumaður er upp og niður. Þetta er ekkert alltaf dans á rósum en gott á margan hátt. Svona er þetta núna. Þau eru hérna heima á Íslandi og eldri sonurinn elskar það að vera í íþróttum og skólanum hér. Á sama tíma fær konan allt það bakland sem hún þarf. Auðvitað er það líka gott á þann hátt en oft erfitt að vera í burtu. Það er ekkert launungarmál.“