Handbolti

Magnaður Sig­valdi sökkti Mag­deburg

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sigvaldi Björn sýndi sínar bestu hliðar.
Sigvaldi Björn sýndi sínar bestu hliðar. Beate Oma Dahle/NTB

Sigvaldi Björn Guðjónsson fór mikinn þegar Kolstad lagði Magdeburg óvænt í Meistaradeild Evrópu karla í handbolta. Þá átti Janus Daði Smárason góðan leik þegar Pick Szeged gerði jafntefli við Barcelona.

Eftir jafnan fyrri hálfleik í Noregi var það Kolstad sem leiddi með einu marki í hálfleik, staðan þá 15-14. Í síðari hálfleik voru það áfram heimamenn sem voru með undirtökin og unnu þeir á endanum óvæntan fjögurra marka sigur, lokatölur 31-27.

Sigvaldi Björn var svo gott sem óstöðvandi í liði Kolstad en hann skoraði 10 mörk og gaf eina stoðsendingu. Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði eitt mark í liði heimamanna á meðan hvorki bróðir hans Arnór Snær né Sveinn Jóhannsson komust á blað. Hvað gestina varðar þá voru Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson hvorugur með.

Í Ungverjalandi var Barcelona í heimsókn og fór það svo að leiknum lauk með 29-29 jafntefli. Janus Daði skoraði fjögur mörk ásamt því að gefa þrjár stoðsendingar. Aðeins Mario Šoštarić kom að jafn mörgum mörkum í liði heimamanna.

Báðir leikirnir voru í B-riðli Meistaradeildarinnar og er staðan þannig að Pick Szeged er í 4. sæti með 13 stig að loknum jafn mörgum leikjum. Magdeburg er með 11 stig í 5. sæti líkt og Kolstad sem er sæti neðar. Öll liðin hafa leikið 13 leiki og aðeins ein umferð eftir.

Alls eru leiknir 14 leikir í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Að þeim loknum fara efstu tvö liðin í báðum riðlum beint í 8-liða úrslit á meðan liðin í 3. til 6. sæti fara í umspil um sæti í 8-liða úrslitum.

Þá skoraði Guðmundur Bragi Ástþórsson tvö mörk þegar Bjerringbro-Silkeborg og Sönderjyske gerðu jafntefli í efstu deild Danmerkur, lokatölur 31-31.

Guðmundur Bragi og félagar sitja nú í 5. sæti með 23 stig að loknum 20 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×