Fyrstu fréttir af samningamálum Real Madrid og Vinícius Júnior greindu frá því að langt væri á milli væntinga félagsins og leikmannsins til nýs samnings. Samingarviðræður voru samt sagðar halda áfram.
Hann á líka að vera frá risatilboð frá Sádí Arabíu sem setur pressu á samningstilboð spænska félagsins.
Næst á dagskrá er leikur á móti nágrönnunum í Atlético Madrid í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar annað kvöld.
„Ég er mjög rólegur yfir þessu því ég er með samning til ársins 2027. Við skulum samt vonast til þess að við getum framlengt samninginn minn eins fljótt og auðið er,“ sagði Vinícius Júnior á blaðamannafundi fyrir leikinn.
„Ég er ánægður hér enda er ég að spila með bestu leikmönnum heims, fyrir besta þjálfarann [Carlo Ancelotti] og fyrir besta forsetann [Florentino Pérez]. Ég er líka að spila þar sem allir elska mig og það er enginn betri staður fyrir mig en einmitt hér,“ sagði Vinícius.
Vinícius hefur unnið Meistaradeildina tvisvar sinnum með Real Madrid og skoraði í báðum úrslitaleikjunum, 2022 og 2024. Þegar hann var spurður út í það hvort hann gæti gefið loforð um að hann yrði áfram hjá Real Madrid þá svaraði Brassinn:
„Ég er hér til að skrifa söguna með öllu því sem þessi klúbbur hefur gefið mér,“ sagði Vinícius.