Handbolti

Fetar í fót­spor afa síns sem hann aldrei kynntist með lands­liðinu

Aron Guðmundsson skrifar
Ísak er á leið í sitt fyrsta A-landsliðs verkefni með íslenska landsliðinu í handbolta. Með því fetar hann í spor afa síns
Ísak er á leið í sitt fyrsta A-landsliðs verkefni með íslenska landsliðinu í handbolta. Með því fetar hann í spor afa síns Vísir/Samsett mynd

Hinn 19 ára gamli Ísak Steins­son, mark­vörður Drammen í Noregi, gæti spilað sinn fyrsta A-lands­leik fyrir Ís­lands hönd í komandi verk­efni liðsins í undan­keppni EM og þar með fetað í fót­spor afa síns sem hann hafði aldrei tækifæri á að kynnast.

Pilturinn ungi var á leið á æfingu með Drammen á dögunum þegar að sím­tal barst frá lands­liðsþjálfaranum Snorra Steini Guðjóns­syni.

„Ég varð mjög spenntur, hafði æft með liðinu þrisvar sinnum áður fyrir síðasta stór­mót í janúar. Það gekk vel og síðan þá hafa þeir verið að fylgjast með mér hérna í Noregi og sögðu að ég héldi áfram að æfa á fullu og svona myndi ég fara að fá leiki. Nú er að koma að því. Ég bara hlakka til,“ segir Ísak í sam­tali við Íþrótta­deild.

Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari ÍslandsVísir/Vilhelm Gunnarsson

Þetta hlýtur að vera ansi stór stund fyrir ungan mann eins og þig. Að fá kallið í lands­liðið?

„Þetta er mjög spennandi. Það stærsta sem ég hef upp­lifað held ég. Þetta hefur verið mark­miðið og draumur minn síðan að ég var lítill. Að spila með ís­lenska lands­liðinu. Þetta er geggjað. Að fá að spila með þessum leik­mönnum líka, heimsklassa leik­menn út um allt, í öllum stöðum. “

Aldrei séð eftir því að hafa valið Ís­land

Móðir Ísaks er ís­lensk, faðir hans norskur og hefur hann alla sína ævi, að undan­skildu hálfu ári, búið í Noregi.

„Ég var tólf ára á þeim tíma. Þá æfði ég með Val og gekk í Landa­kots­skóla. Við komum til Ís­lands til þess að læra ís­lenskuna betur og kynnast því hvernig væri að búa þar. Fyrir þann tíma talaði ég nánast enga ís­lensku. En eftir þann tíma spjöllum við eigin­lega bara á ís­lensku við mömmu.“

Ísak eftir að hafa verið valinn maður leiksins í einum af leikjum sínum með liði Drammen í norsku úrvalsdeildinniMynd: Drammen

Það kom að þeim tíma­punkti að hann þurfti að velja fyrir hvor þjóðina hann myndi spila. Hand­boltaóð ís­lensk þjóð spilaði þar stóra rullu sem og sú stað­reynd að afi hans, Sigur­geir Sigurðs­son varði mark Ís­lands á sínum tíma.

„Í fyrsta bekk í Mennta­skóla var ég valinn í yngri lands­lið Noregs á sama tíma og ég var valinn í yngra lands­lið Ís­lands. Á þeim tíma­punkti þurfti ég bara að velja. Ég talaði við fullt af fólki. Vissi ekkert hvað ég ætti að gera. Vildi helst prófa bæði en fór svo á æfingu á Ís­landi með yngra lands­liðinu, Heimir Rík­harðs­son var þjálfarinn og mér fannst bara geggjað að vera með strákunum á Ís­landi. Ég þekkti eigin­lega engan þeirra á þessum tíma en mætti á æfingu og þeir voru mjög góðir við mig, tóku vel á móti mér.

Ég hugsaði mig mikið um á þessum tíma en hef alltaf haft gaman af því hvernig allir á Ís­landi eru ein­hvern veginn að fylgjast með þegar að það er stór­mót í janúar í gangi. Þá var afi minn í ís­lenska lands­liðinu í hand­bolta. Ég hitti hann aldrei, hann lést áður en ég fæddist, en ég hef heyrt mikið um hann og er stoltur af því að geta fetað í hans fót­spor. Ég hef aldrei séð eftir því að hafa valið Ís­land, sér­stak­lega ekki núna.“

Frétt af félagskiptum Sigurgeirs, afa Ísaks, út Tímanum árið 1973. Þar segir meðal annars: „Með komu Sigurgeirs verður Víkingsliðið eitt af okkar allra sterkustu félagsliðum“Timarit.is

Á sér stóra drauma

Ísak er á sínu fyrsta tíma­bili í norsku úr­vals­deildinni og líkar það vel.

„Drammen er mjög gott lið með frekar ungan leik­manna­hóp og góðan þjálfara í Kristian Kjelling. Liðið er þekkt fyrir að spila á ungum leik­mönnum sem hafa síðan margir hverjir tekið næsta skref á hærra stig í boltanum. Hér fæ ég að spila mikið, æfa af krafti og undir­búningurinn fyrir leiki er góður. Það mikilvægasta fyrir mig á þessum tíma­punkti á ferlinum er að spila mikið og læra. Ég skrifaði undir þriggja ára samning hérna og á tvö ár eftir. Ég gæti ekki verið á mikið betri stað eins og staðan er núna.

VariðMynd: Drammen

Hann á sér stóra drauma.

„Draumur minn er í raun bara að spila fyrir ís­lenska lands­liðið. Vonandi rætist sá draumur núna bráðum. Að verða einn besti mark­maður í heimi er síðan líka mark­miðið, spila í deild á borð við þýsku úr­vals­deildina. Ég verð bara að halda áfram að leggja hart að mér. Það að vera valinn í lands­liðið fyrir komandi verk­efni er mér mikil hvatning. Ég reyni bara að sýna mig og sanna þar.“


Tengdar fréttir

„Eins manns dauði er annars brauð“

Stóra pósta vantar í leik­manna­hóp Ís­lands fyrir næstu leiki liðsins í undan­keppni EM í hand­bolta. Það reyndist Snorra Steini Guðjóns­syni, lands­liðsþjálfara, vanda­samt að velja hópinn.

„Held að hann sé hund­fúll að vera ekki í liðinu“

Markvörðurinn Ísak Steinsson gæti leikið sinn fyrsta A-landsleik í komandi verkefni íslenska karlalandsliðsins í handbolta í undankeppni EM. „Mjög efnilegur markvörður sem mér fannst við þurfa að sýna athygli,“ segir landsliðsþjálfarinn sem telur reynsluboltann Björgvin Pál vera hundfúlan að vera ekki í liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×