Þetta var fyrri leikur liðanna en sá síðari fer fram á Villa Park, heimavelli Aston Villa, í næstu viku.
Belgarnir komu mörgum á óvart með því að slá ítalska liðið Atalanta í síðustu umferð en nú bíður þeirra afar erfitt verkefni í seinni leiknum.
Staðan var jöfn tíu mínútum fyrir leikslok en tvö mörk enska liðsins á lokamínútunum fór langt með að gera út um þetta einvígi.
Aston Villa fékk algjöra draumabyrjun þegar Leon Bailey skoraði strax á þriðju mínútu leiksins. Bailey fékk þá boltann frá Tyrone Mings sem skallaði aukaspyrnu Youri Tielemans til hans.
Club Brugge var aðeins níu mínútur að jafna metin þegar vinstri bakvörðurinn Maxim De Cuyper skoraði með góðu skoti.
Tvö mörk á fyrstu tólf mínútunum en næsta mark kom ekki fyrr en átta mínútum fyrir leikslok.
Brandon Mechele varð þá á því að skora sjálfsmark eftir fyrirgjöf frá Morgan Rogers.
Stuttu áður hafði Tyrone Mings bjargað á ótrúlegan hátt á marklínunni þegar það leit út fyrir að Hans Vanaken væri að koma Club Brugge yfir.
Ófarir heimamanna héldu áfram því stuttu eftir sjálfsmarkið fékk Matty Cash vítaspyrnu sem Marco Asensio skoraði úr. Lánsmaðurinn heldur því áfram að gera frábæra hluti með Villa.