Sigur Liverpool gegn PSG var hálfótrúlegur því heimamenn voru mikið betri úti á vellinum en fundu aldrei leið framhjá Alisson í marki gestanna. Það var svo Alisson sem hóf sóknina þegar Liverpool átti sitt eina skot í leiknum en í kjölfarið á langri sendingu hans barst boltinn til Harvey Elliott sem skoraði markið sem sjá má hér að neðan.
Barcelona missti Pau Cubarsí af velli með rautt spjald strax á 22. mínútu í Portúgal í gær en náði samt að vinna Benfica, 1-0. Fyrirliðinn Raphinha komst inn í sendingu og skoraði sigurmarkið með skoti utan teigs.
Í München skoraði Harry Kane tvennu í 3-0 sigri Bayern á Leverkusen. Fyrra markið gerði Kane með skalla og það seinna úr víti sem hann vann sjálfur fyrir.
Í millitíðinni skoraði Jamal Musiala eftir skelfileg mistök Tékkans Matej Kovár sem stóð í marki Leverkusen.
Mörkin úr sigrum Barcelona og Bayern eru saman í klippunni hér að neðan.
Inter vann svo 2-0 útisigur gegn Feyenoord. Fyrra markið gerði Marcus Thuram af stuttu færi eftir fyrirgjöf og hið seinna skoraði Lautaro Martínez með föstu skoti úr teignum.
Inter fékk svo víti á 65. mínútu en Timon Wellenreuther varði spyrnu Piotr Zielinski og gaf Feyenoord einhverja von um að komast áfram úr einvíginu.
Einvígin klárast næstkomandi þriðjudag.