Þetta er fullyrt í bandaríska slúðurmiðlinum Page Six. Líkt og fram hefur komið eru þau Lopez og Affleck nýskilin. Margt var rætt og ritað um mögulegan skilnað þeirra, þau sáust ekki saman í lengri tíma, þar til það fékkst staðfest í ágúst í fyrra að Lopez hefði sótt um skilnað.
Í umfjöllun miðilsins kemur fram að skilnaður þeirra hafi gengið endanlega í gegn 20. febrúar síðastliðinn. Að undanförnu hafi Affleck svo eytt miklum tíma með Garner, en þau skildu sjálf að borði og sæng árið 2018. Þau eiga saman þrjú börn, hina nítján ára gömlu Violet, hina sextán ára Seraphinu og hinn tólf ára gamla Samuel.
Fram kemur að Affleck og Garner hafi meðal annars tekið krakkana í litbolta (e. paintball) í Los Angeles á dögunum. Af þeim sáust þar myndir þar sem þau eru skellihlæjandi og líta út fyrir að hafa aldrei haft það betra. Þá sjást þau meðal annars faðma hvort annað svo spurningar hafa vaknað um það hvort þau séu að endurnýja ástarkynnin.
Yfir þessu er Lopez æf, að því er ónafngreindur heimildarmaður sem sagður er náinn söngkonunni, fullyrðir við PageSix. Hann segir myndirnar einfaldlega rugla Lopez í ríminu á erfiðum tímum. Miðillinn gerir minna úr því að annar vinur söngkonunnar fullyrðir að hún hafi allt of mikið að gera við tökur á Netflix myndinni Office Romance til þess að pæla nokkuð í sínum fyrrverandi.
Þá hefur PageSix eftir vinum þeirra Affleck og Garner að Affleck hafi aldrei verið betri. Garner njóti þess að eyða tíma með Affleck. Hún er enn með viðskiptajöfrinum John Miller. Affleck og Garner hugsi fyrst og fremst um börnin sín.