Fótbolti

Ronaldo skaut á að­dáanda: Þú ert ljótur og ekkert líkur mér

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo skoraði í gærkvöld en það dugði þó ekki til sigurs.
Cristiano Ronaldo skoraði í gærkvöld en það dugði þó ekki til sigurs. AFP/ Fayez NURELDINE

Cristiano Ronaldo var ekki á því að hann ætti tvífara uppi í stúku á leik Al Nassr gegn Al Shabab í sádiarabísku úrvalsdeildinni í gær og lét hann vita af því með dálítið harkalegu gríni.

Ronaldo var að hita upp fyrir leikinn þegar hann sá aðdáanda í stúkunni sem fyrir mörgum gæti eflaust virst líkur portúgölsku stórstjörnunni.

Aðdáandinn var í portúgalskri landsliðstreyju með nafni Ronaldo og númeri, og hárgreiðslan og almennt útlit minnti óneitanlega á Ronaldo.

Ronaldo vildi greinilega koma í veg fyrir allan misskilning því hann kallaði til aðdáandans:

„Félagi, þú ert ekkert líkur mér. Þú ert mjög ljótur,“ en glotti svo við tönn.

Aðdáandinn lét þetta ekki slá sig út af laginu og kallaði: „Þú ert bestur!“ á átrúnaðargoðið sitt.

Hann fékk svo að sjá Ronaldo skora í leiknum og koma Al Nassr í 2-1 en þegar tuttugu mínútur voru eftir var Ronaldo skipt af velli, eftir að Al Nassr var orðið manni færra. Al Shabab náði svo að jafna metin og nú er Al Nassr í 4. sæti deildarinnar, tíu stigum á eftir toppliði Al Ittihad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×