Erlent

Utan­ríkis­ráðherra Banda­ríkjanna segir Pól­landi að segja takk

Lovísa Arnardóttir skrifar
Frá vinstri á myndinni eru Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Radosław Sikorski, utanríkisráðherra Póllands og svo Elon Musk eigandi Tesla og SpaceX.
Frá vinstri á myndinni eru Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Radosław Sikorski, utanríkisráðherra Póllands og svo Elon Musk eigandi Tesla og SpaceX. Vísir/EPA

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði Póllandi að þakka fyrir sig í nýrri færslu á samfélagsmiðlinum X og að enginn hefði hótað að loka á tengingu Úkraínumanna við Starlink netþjónustuna.

Það sagði hann í tilefni af því að Radosław Sikorski, utanríkisráðherra Póllands, svaraði Elon Musk á sama miðli eftir að Musk sagði í færslu á sama miðli að Úkraína yrði sambandslaus ef hann myndi slökkva á Starlink.

„Bara að skálda,“ segir Rubio í færslunni sinni og segir engan hafa hótað að skera á tengingu Úkraínu við Starlink eins og Sikorski talaði um í sinni færslu.

Marco Rubio sagði engan hafa hótað að skera á tengingu Úkraínumanna við Starlink. X

„Og segðu takk því án Starlink hefði Úkraína tapað þessu stríði fyrir löngu og Rússar væru komnir að landamærunum við Pólland núna,“ segir Rubio.

Greiða milljónir árlega fyrir þjónustuna

Sikorski bendir á það í sinni færslu að pólsk yfirvöld greiði um 50 milljónir Bandaríkjadala árlega fyrir Starlink í Úkraínu. Þá segir hann Pólland neyðast til að leita annað eftir slíkri þjónustu ef SpaceX reynist vera óáreiðanlegur þjónustuveitandi.

Sikorski svaraði Musk á samfélagsmiðlinum X. X

Musk sagði í sinni færslu að hann hefði skorað Vladimír Pútín á hólm og að Starlink væri meginstoð í úkraínska hernum.

„Fremsta línan þeirra myndi falla saman ef ég myndi slökkva á því,“ sagði Musk og að hann væri orðinn þreyttur á pattstöðu sem Úkraína myndi á endanum tapa og kallaði eftir friði.

Musk sagðist hafa skorað Pútín á hólm. X

Tengdar fréttir

Trump dregur úr völdum Musk eftir hitafund

Donald Trump kallaði saman ráðherra sína á fund á fimmtudag til að ræða DOGE, sparnaðarstofnun Elons Musk. Upp úr sauð á fundinum milli Musk og ráðherranna Marco Rubio og Sean Duffy. Forsetinn sagði að teymi Musk myndi framvegis aðeins hafa ráðgefandi hlutverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×