Fótbolti

Sjáðu markið hans Alberts gegn Napoli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Albert Guðmundsson skorar gegn Napoli.
Albert Guðmundsson skorar gegn Napoli. afp/Carlo Hermann

Albert Guðmundsson skoraði eina mark Fiorentina þegar liðið tapaði fyrir Napoli, 2-1, í ítölsku úrvalsdeildinni í gær.

Napoli náði forystunni á 26. mínútu þegar Romelu Lukaku fylgdi eftir skoti Scotts McTominay sem David De Gea varði. Á 60. mínútu fann Lukaku svo Giacomo Raspadori sem skoraði annað mark heimamanna.

Sex mínútum síðar minnkaði Albert muninn. Moise Kean sendi boltann með hælnum á íslenska landsliðsmanninn sem lagði hann fyrir sig og skoraði svo með góðu skoti fyrir utan vítateig.

Mörkin úr leiknum má sjá hér fyrir neðan.

Albert hefur nú skorað fimm mörk í ítölsku úrvalsdeildinni í vetur auk eins marks í Sambandsdeild Evrópu. Hann kom til Fiorentina frá Genoa fyrir tímabilið en hefur aðeins spilað 21 leik í öllum keppnum í vetur vegna meiðsla.

Fiorentina hefur tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum og er í 8. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar.

Næsti leikur Fiorentina er gegn Panathinaikos í sextán liða úrslitum Sambandsdeildarinnar á fimmtudaginn. Grikkirnir unnu fyrri leikinn á sínum heimavelli, 3-2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×