Bruno Fernandes kom United yfir í leiknum í gær með marki beint úr aukaspyrnu en Declan Rice jafnaði fyrir Arsenal og þar við sat. Eftir jafnteflið er Arsenal fimmtán stigum á eftir toppliði Liverpool.
Keane fannst ekki mikið til frammistöðu Arsenal-liðsins í gær koma.
„Ef þú ert ekki beittur og skorar ekki mörk gleymdu því þá að minnka forskot Liverpool. Þú ættir að hafa meiri áhyggjur af liðunum fyrir aftan þig,“ sagði Keane á Sky Sports eftir leikinn.
Arsenal er sex stigum á undan Chelsea sem er í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Fjögur efstu liðin komast í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili og svo gæti farið að fimmta liðið bættist við en það veltur á frammistöðu ensku liðanna í Evrópukeppnunum.
Arsenal er svo gott sem komið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar eftir að hafa unnið 1-7 útisigur á PSV Eindhoven í fyrri leiknum í sextán liða úrslitunum í síðustu viku. Skyttunum tókst hins vegar ekki að fylgja þeirri frammistöðu eftir í gær.
Næsta skref er það erfiðasta
„Arsenal skoraði sjö mörk í vikunni en það var ekkert að frétta hjá þeim í dag [í gær]. Þú hugsaðir frekar að United myndi vinna og þeir hafa verið ömurlegir. Ég myndi horfa á hugarfarið og hugsa: Hvar var það? United lá vel við höggi en Arsenal voru ekki klókir. Þeir voru opnir og United hefði getað unnið þetta undir lokin,“ sagði Keane.
„Arsenal hefur gert vel og tekið framförum síðustu ár en næsta skrefið er það erfiðasta. Ef þú ert Arsenal hvað gerir 2. sætið fyrir þig? Þú vilt vinna titla. Ég sá ekki Arsenal-lið sem vissi að United lá vel við höggi. Ég var ekki sáttur við hugarfar þeirra. Gleymdu Liverpool, hafðu frekar áhyggjur af liðunum fyrir neðan.“
Næsti leikur Arsenal er gegn PSV á Emirates á miðvikudaginn. Næsti deildarleikur Arsenal er gegn Chelsea á sunnudaginn.