Fótbolti

„Hann mun halda með okkur frá himnum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carles Minarro Garcia heitinn hugar hér að meiðslum Lamine Yamal í leik með Barcelona fyrr á þessu tímabili.
Carles Minarro Garcia heitinn hugar hér að meiðslum Lamine Yamal í leik með Barcelona fyrr á þessu tímabili. Getty/Sergio Ros de Mora

Hansi Flick, þjálfari Barcelona, segir leikmenn sína staðráðna í því að heiðra minningu liðslæknisins Carles Minarro þegar liðið mætir Benfica annað kvöld í seinni leik félaganna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Minarro fannst látinn í hótelherbergi sínu nokkrum klukkutímum fyrir leik liðsins á móti Osasuna í spænsku deildinni. Leiknum var aflýst.

Leikurinn á móti Benfica verður því fyrsti leikur Barcelona síðan að læknirinn lést en hann var bara 53 ára gamall. Barcelona vann fyrri leikinn 1-0 í Lissabon og er því í góðri stöðu í einvíginu.

„Þetta er mikill missir. Carles var frábær manneskja og frábær læknir. Samvinna hans og Ricard [Pruna] læknis var ómetanleg fyrir félagið og átti mikinn þátt í árangri liðsins,“ sagði Hansi Flick.

Við munum sakna hans

„Við munum sakna hans. Ég held að hann muni halda með okkur frá himnum. Við viljum spila fyrir hann. Staðan er þannig að það er mikilvægt fyrir okkur að vinna. Þar liggur okkar fókus,“ sagði Flick.

„Liðið er á góðum stað miðað við aðstæður. Það er núna okkar starf að halda áfram. Þetta er mikilvæg staða fyrir okkur, fyrir félagið, fyrir stuðningsmennina og við viljum standa okkur. Það er mikilvægt fyrir okkur að vinna þennan leik,“ sagði Flick.

Joan Laporta, forseti Barcelona, sagði að félagið væri í áfalli vegna fráfalls Minarro sem hafði verið hjá félaginu frá 2017. Nokkrir leikmenn unnu mjög náið með honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×