Skíðastökkvurunum Marius Lindvik og Johann André Forgang var vikið úr keppni eftir að upp komst að Norðmenn hefðu haft rangt við. Lindvik vann til silfurverðlauna á stórum palli en hefur verið sviptur þeim.
Málið snýst um að Norðmenn áttu við búninga skíðastökkvarana og settu auka stífari saum í þá en leyfilegt er samkvæmt reglum Alþjóða skíðasambandsins (FIS). Það átti að hjálpa skíðastökkvurunum að svífa lengra.
Myndband af saumaskapnum ólöglega fór í dreifingu um helgina. Þar sést búningastjórinn Adrian Livelten setja sauminn í búningana.
Fyrst í stað þrættu Norðmenn fyrir að hafa svindlað viljandi en á sunnudaginn var komið annað hljóð í strokkinn. Þá viðurkenndi íþróttastjórinn Jan-Erik Aalbu að Norðmenn hefðu svindlað.
Í gær tjáði Brevig sig svo við norska fjölmiðla. Hann sagði að búningunum hafi verið breytt viljandi og sagðist sjá eftir því að hafa ekki stöðvað atburðarrásina. Hann baðst afsökunar á svindlinu og sagðist vera fullur eftirsjár.
Brevig sagði jafnframt að þetta hefði verið í fyrsta sinn sem auka saumur hefði verið settur í búningana en FIS hefur hafið rannsókn á því hvort Norðmenn hafi byrjað að svindla fyrr en þeir hafa viðurkennt.
Auk Brevigs hefur skraddarinn Livelten verið settur af.