Þetta sagði Duterte í ræðum árið 2018, eftir að íslenskir erindrekar, undir stjórn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þáverandi utanríkisráðherra, lögðu ályktun fyrir Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttindamála á Filippseyjum í forsetatíð hans. Sú ályktun snerist um að staða mannréttinda þar yrði rannsökuð.
Sjá einnig: Duterte sakaður um glæpi gegn mannkyninu og handtekinn í Manila
Í forsetatíð Rodrigo Duterte í Filippseyjum voru tugir þúsunda íbúa landsins teknir af lífi án dóms og laga. Margir voru skotnir á götu úti vegna ásakana um að þeir væru að selja fíkniefni eða neyta þeirra.
Lögregluþjónar bönuðu fjölda fólks en fjölmargir voru myrtir af hópum manna sem ákváðu að taka lögin í hendur og fóru um götur borga og bæja Filippseyja í leit að meintum fíkniefnasölum og neytendum.
Sjá einnig: „Íslenska úttektin“ sýnir að tugir þúsunda gætu hafa látist í fíkniefnastríðinu
Duterte hélt sjálfur út lista yfir stjórnmálamenn sem hann sakaði um tengsl við fíkniefnaglæpi. Borgarstjóri sem hann setti á listann var skotinn til bana. Hann lét af embætti árið 2022 og er 79 ára gamall.
New York Times birti í janúar viðtal við mann sem sagðist hafa myrt að minnsta kosti fimmtíu manns fyrir Duterte í gegnum árin.
Eftir að forsvarsmenn Alþjóðlega sakamáladómstólsins (ICC) lýstu því yfir í upphafi 2018 að „fíkniefnastríð“ Duterte væri til rannsóknar sagði forsetinn þáverandi að Filippseyjar myndu segja sig frá Rómarsamþykktinni um stofnun dómstólsins og kallaði eftir því að fleiri gerðu það sama.
Í júlí 2018, eftir að áðurnefnd ályktun var samþykkt af Mannréttindaráðinu, hélt Duterte ræðu þar sem hann sagði íslensku þjóðina gera lítið annað en að borða ís. Hún hefði engan skilning á vandamálum Filippseyja.
„Hvert er vandamál Íslands? Ekkert nema ís. Það er vandamálið ykkar. Þið hafið of mikið af ís og það er ekki hægt að greina milli dags og nætur þarna,“ sagði Duterte þá og flakkaði hann milli ensku og filipino.
„Svo þið skiljið hvers vegna þar eru engir glæpir, engir lögreglumenn heldur, og þau borða bara ís.“
Það var svo í ágúst sama ár þegar Duterte blótaði Íslendingum í sand og ösku og sagðist vona að þjóðin myndi frjósa í hel. Þá gagnrýndi hann einnig stefnu Íslands hvað varðar þungunarrof en þetta sagði hann í ræðu sem átti að vera um landbúnað í Filippseyjum.
„Vitið þið hvað? Ísland leyfir þungunarrof upp að sex mánuðum. Ísland heimilar slátrun á fóstrum í móðurkviði upp að sex mánuðum,“ sagði Duterte.
„Þessi drullusokkar.“
Seinna í sömu ræðu sagðist hann ekki skilja Íslendinga og kallaði okkur „asna“.
„Ísland er svona vegna þess að þeir borða ís. Þeir hafa ekki vatn. Þessir drullusokkar eru fábjánar,“ sagði Duterte.
„Þeir segja mér hvernig ég á að vinna vinnuna mína. Ég vorkenni ykkur, þetta er ástæðan fyrir því að þið eruð dæmd til að vera ísilögð að eilífu, ég vona að þið frjósið í hel.“