Umrætt hótel er notað sem fundarstaður ættbálkaleiðtoga á svæðinu og yfirmanna hersins. Í dag átti sér stað fundur milli slíkra leiðtoga þar sem þeir voru að ræða sameiginlega baráttu þeirra gegn al-Shabaab en hryðjuverkamenn samtakanna hafa um árabil barist til að fella stjórnvöld Sómalíu.
Fregnir um fjölda látna hafa verið á nokkru reiki, að virðist eftir því hvaða embættismenn blaðamenn ytra hafa rætt við. AP fréttaveitan segir að minnsta kosti sex liggja í valnum og þýska fréttaveitan DPA segir tólf. Þá eru einhverjir sagðir hafa verið fluttir á sjúkrahús.
Al-Shabaab stjórnar hlutum Sómalíu en her ríkisins, auk sveita frá Afríkusambandinu, hefur gengið illa að ráða niðurlögum hryðjuverkasamtakanna. Beledweyne er héraðshöfuðborg Hiran-héraðs en þar hafa vígamenn al-Shabaab verið virkir.
Vígamennirnir hafa einnig verið virkir og gert árásir í Kenía og Úganda á undanförnum árum. Íslamska ríkið er einnig umsvifamikið í Sómalíu og mun vígamönnum samtakanna hafa vaxið ásmegin þar.