Réttarhöld yfir sjö læknum og hjúkrunarkonum sem önnuðust Maradona síðustu dagana sem hann var á lífi hófust í gær. Þeim er gefið að sök að hafa átt þátt í dauða Argentínumannsins.
Saksóknari segir ummönnun Maradonas síðustu daga hans á lífi hafi verið ófullnægjandi og gálaus og átt þátt í dauða hans.
Máli sínu til stuðnings sýndi saksóknarinn mynd frá síðasta deginum sem Maradona var á lífi. Þar sást hann liggja á bakinu með þaninn magann út í loftið. Dalma, dóttir Maradonas, brast í grát þegar hún sá myndina.
Yfir hundrað manns bera vitni í réttarhöldunum yfir þeim sem önnuðust Maradona. Ef þau verða fundin sek geta þau átt yfir höfði sér 25 ára fangelsi.
Maradona gekkst undir heilaaðgerð í byrjun nóvember 2020. Eftir að hann var útskrifaður af spítala var hann í umsjón lækna og hjúkrunarfólks. Maradona lést svo 25. nóvember, sextugur að aldri. Saksóknarinn segir engan vafa liggja á því að slæm meðferð ummönnunaraðila Maradonas hafi dregið hann til dauða.
„Í hryllingshúsinu sem Diego Maradona lést í gerði enginn það sem hann átti að gera,“ sagði saksóknarinn, Patricio Ferrari. Að hans sögn vanræktu þau sem áttu að sjá um Maradona allar skyldur sínar.