Arnar Gunnlaugsson, nýr þjálfari íslenska karlalandsliðsins, tilkynnti í gær að hann ætlaði að geta Orra Stein að fyrirliða þar sem hann væri leiðtogi nýju kynslóðarinnar í liðinu.
Það að hann sé að fá fyrirliðabandið fyrir 21 árs afmælið sitt, var full ástæða til að skoða sögubæknurnar. Metin falla ekki því þau verða áfram í eigu þeirra Eyleifs Hafsteinssonar og Ásgeirs Sigurvinssonar.

Eyleifur er yngsti fyrirliði Íslands í A-landsleik karla. Hann var aðeins tuttugu ára, tveggja mánaða og fjórtán daga þegar hann var fyrirliði Íslands í vináttulandsleik á móti Bretlandi á Laugardalsvellinum 14. ágúst 1967. Bretarnir unnu leikinn 3-0 en þetta var áttundi landsleikur Eyleifs.
Eyleifur var líka fyrirliði í næsta leik á eftir sem er einn frægasti leikur í sögu Íslands þegar liðið tapaði 14-2 á móti Dönum í vináttulandsleik á Parken 23. ágúst 1967. Eyleifur átti eftir að spila 26 landsleiki en var bara fyrirliði í þessum tveimur leikjum.

Ásgeir Sigurvinsson er síðan yngsti fyrirliði Íslands í keppnislandsleik. Hann var aðeins tuttugu ára, þriggja mánaða og 29 daga þegar hann var fyrirliði Íslands í leik á móti Belgíu í undankeppni EM 6. september 1975. Belgarnir unnu þann leik 1-0 en þetta var fjórtándi landsleikur Ásgeirs.
Ásgeir var einnig fyrirliði í tveimur lansleikjum í undankeppni HM haustið 1977 en hann leiddi íslenska landsliðið sjö sinnum út á völlinn sem fyrirliði. Einn af þeim var síðasti landsleikur hans þegar Ísland vann 2-0 sigur á Tyrkjum á Laugardalsvellinum 20. september 1989.
- Yngstu fyrirliðar íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu:
- 20 ára - 2 mánaða og 14 daga
- Eyleifur Hafsteinsson á móti Bretlandi 14. ágúst 1967 (vináttuleikur)
- 20 ára - 2 mánaða og 23 daga
- Eyleifur Hafsteinsson á móti Danmörku 23. ágúst 1967 (vináttuleikur)
- 20 ára - 3 mánaða og 29 daga
- Ásgeir Sigurvinsson á móti Belgíu 6. september 1975 (Undankeppni EM)
- 20 ára - 6 mánaða og 20 daga
- Ef Orri Steinn Óskarsson verður fyrirliði á móti Kósóvó (Umspil Þjóðadeildar)
- 20 ára - 11 mánaða og 13 daga
- Gísli Torfason á móti Færeyjum 23. júní 1975 (vináttuleikur)
- 22 ára - 3 mánaða og 23 daga
- Ásgeir Sigurvinsson á móti Hollandi 31. ágúst 1977 (Undankeppni HM)
- 22 ára - 3 mánaða og 26 daga
- Ásgeir Sigurvinsson á móti Belgíu 3. september 1977 (Undankeppni HM)
- 23 ára - 1 mánaða og 5 daga
- Aron Einar Gunnarsson á móti Frakklandi 27. maí 2012 (vináttuleikur)
- 23 ára - 1 mánaða og 8 daga
- Aron Einar Gunnarsson á móti Svíþjóð 30. maí 2012 (vináttuleikur)
- 23 ára - 3 mánaða og 24 daga
- Aron Einar Gunnarsson á móti Færeyjum 15. ágúst 2012 (vináttuleikur)
- 23 ára - 4 mánaða og 16 daga
- Aron Einar Gunnarsson á móti Noregi 7. september 2012 (Undankeppni HM)
- 23 ára - 4 mánaða og 20 daga
- Aron Einar Gunnarsson á móti Kýpur 11. september 2012 (Undankeppni HM)
- 23 ára - 4 mánaða og 29 daga
- Gylfi Þór Sigurðsson á móti Rúslandi 6. febrúar 2013 (vináttuleikur)
- 23 ára - 5 mánaða
- Kolbeinn Sigþórsson á móti Færeyjum 14. ágúst 2013 (vináttuleikur)
- 23 ára - 5 mánaða og 20 daga
- Aron Einar Gunnarsson á móti Albaníu 12. október 2012 (Undankeppni HM)