16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu kláruðust í fyrrakvöld og síðustu ár hefði þurft að bíða þess að dregið yrði í næstu umferð. Vegna nýs fyrirkomulags á Evrópukeppnunum liggur hins vegar fyrir hvernig keppnirnar líta út allt til loka.
Að neðan má sjá hvernig útlitið er fyrir framhaldið í keppnunum.
Meistaradeild Evrópu
Arsenal og Aston Villa eru fulltrúar Englands í Meistaradeildinni en ljóst er að aðeins annað þeirra hefur kost á að komast í úrslitin, enda eru þau innan sama hluta keppninnar. Vinni þau sína leiki mætast þau í undanúrslitum.

Líklegt þykir þó að Paris Saint-Germain slái lærisveina Unai Emery úr leik eftir frábæra frammistöðu gegn Liverpool og þá er verkefni Arsenal ekki einfalt, er liðið mætir Real Madrid.
Barcelona mætir Borussia Dortmund hinu megin og vinni Börsungar bíður þeirra annað hvort lið Bayern Munchen eða Inter Milan.
8-liða úrslit
- Paris Saint-Germain - Aston Villa
- Arsenal - Real Madrid
- Barcelona - Borussia Dortmund
- Bayern Munchen - Inter Milan

Undanúrslit
- PSG/Aston Villa - Arsenal/Real Madrid
- Barcelona/Dortmund - Bayern/Inter
Evrópudeildin
Einnig eru tvö ensk lið í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Tottenham og Manchester United geta mæst í úrslitum, komist liðin svo langt. Tottenham mætir Frankfurt og svo annað hvort Bodö/Glimt eða Lazio í undanúrslitum.

Manchester United sló Orra Stein Óskarsson og félaga í Real Sociedad úr keppni í gær. Næst mætir liðið Lyon og vinnist franska liðið er það annað hvort Rangers frá Glasgow eða baskaliðið Athletic Bilbao.
8-liða úrslit
- Bodö/Glimt - Lazio
- Tottenham - Frankfurt
- Rangers - Athletic Bilbao
- Lyon - Manchester United

Undanúrslit
- Bodö/Lazio - Tottenham/Frankfurt
- Rangers/Athletic - Lyon/Man Utd
Sambandsdeildin
Chelsea þykir langlíklegast til árangurs í Sambandsdeildinni, en Albert Guðmundsson og félagar hans í Fiorentina auk Real Betis eru talin líkleg í úrslit. Albert skoraði eitt marka Fiorentina sem sló Sverri Inga Ingason og félaga í Panathinaikos úr keppni í gær.

Fiorentina hefur farið í úrslit keppninnar tvö ár í röð, í bæði skipti án árangurs. Liðið tapaði fyrir West Ham í úrslitum 2023 og fyrir Olympiakos í fyrra. Það er því spurning hvort allt sé þegar þrennt er hjá fjólubláum.
Chelsea þarf að komast í gegnum Legiu frá Varsjá og svo annað hvort Djugården eða Rapid Wien til að fara í úrslit.
8-liða úrslit
- Real Betis - Jagiellonia Bialystok
- Celje - Fiorentina
- Legia Varsjá - Chelsea
- Djurgården - Rapid Vín
Undanúrslit
- Betis/Jagiellonia - Celje/Fiorentina
- Legia/Chelsea - Djurgården/Rapid Vín
Allir leikirnir sem eftir eru í keppnunum þremur verða sýndir ýmist á Stöð 2 Sport, Vodafone Sport eða Viaplay.