Amir Rrahmani er fyrirliði Kósóvó og á meðal betri leikmanna liðsins. Hann leikur með Napoli í ítölsku A-deildinni en hann fór meiddur af velli á 77. mínútu þegar Napoli gerði markalaust jafntefli við Venezia í Feneyjum í gær.
Antonio Conte, þjálfari Napoli, telur að meiðslin séu óalvarleg en skoða þurfi stöðu Rrahmani í samráði við læknateymi kósóvska liðsins. Vera má að Rrahmani missi af leikjunum við Ísland en eins og sakir standa er Rrahmani í hópi liðsins fyrir leikina sem fram undan eru.
Ísland mætir Kósóvó í Pristina á fimmtudagskvöldið kemur klukkan 19:45 og kemur landsliðið saman í vikunni fyrir fyrstu leiki Arnars Gunnlaugssonar við stjórnvölin. Liðin mætast öðru sinni í Murcia á Spáni seinni part sunnudags.
Báðir landsleikir Íslands verða sýndir beint á Stöð 2 Sport í opinni dagskrá.