Stöðurnar eru auglýstar í gegnum hollensku ráðningarskrifstofuna Confair aviation. Á vef fyrirtækisins má sjá auglýsingar fyrir stöður fyrstu freyja, flugmanna og flugstjóra. Í auglýsingunum koma upplýsingar um kaup og kjör ekki fram en Vísir hefur nánari upplýsingar um stöðu fyrstu freyju undir höndum.
Fljúga ekki til Íslands
Félagið sem um ræðir er Fly Play Europe, maltneskt dótturfélag hins íslenska Play. Tilkynnt var um endurskipulagningu reksturs Play og stofnun maltnesks dótturfélags í október síðastliðnum.
„Play verður áfram íslenskt lágfargjaldafélag, með meiri hlutann af sínum vélum í rekstri frá Keflavík,“ sagði Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, í samtali við fréttastofu á sínum tíma. Aftur á móti yrði einhver hluti flugflota félagsins nýttar í starfsemi fyrir aðra flugrekendur, ekki undir merkjum Play og með erlendar áhafnir.
Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, segir í svari við fyrirspurn Vísis að Play Europe sé maltneskt flugfélag og verði einungis með flugstarfsemi utan Íslands. Þannig verði ekki flogið til og frá Íslandi heldur frá borgum í Austur-Evrópu og ekki undir vörumerki Play.
Launin sem komi fram í auglýsingunni séu í samræmi við laun fyrir sambærilegar stöður á þeim stöðum sem flogið verður frá.
Heildarlaunin 1.500 evrur miðað við lágmarkstíma
Í auglýsingunni segir að heimavellir sem flogið verði frá séu flugvöllurinn í Katowice í Póllandi og flugvöllurinn í Kisíná í Moldóvu.
Annars vegar sé um að ræða störf þar sem er unnið 20 daga á mánuði og hins vegar 23 daga. Ferðalög til og frá heimavelli séu talin með í unnum dögum. Félagið muni sjá starfsmönnum fyrir fari milli heimilis og heimavallar fyrir hverja törn. Þá muni félagið hýsa starfsmenn á heimavellinum og útivöllum. Innifalið sé morgunmatur, internettenging og aðgangur að þvottahúsi.
Í auglýsingunni segir að heildarlaun séu að meðaltali 1.500 evrur, 217 þúsund íslenskar krónur, á mánuði. Að sögn Birgis er um að ræða laun fyrir lágmarksflugtíma. Í auglýsingunni er tekið fram að laun séu greidd á vinnustað en unnt sé að óska eftir að laun séu greidd í heimalandi starfsmanns.
Fimm daga veikindaréttur og engar tryggingar
Í auglýsingunni segir hvað varðar önnur kjör að starfsmenn njóti 24 orlofsdaga á ári, sem skuli taka á svokölluðum OFF dögum. Fyrstu freyjur þurfi að sjá fyrir eigin tryggingum (e. social coverage).
Loks segir að veikindadagar séu fimm á ári.