Fótbolti

Stuðnings­menn Barcelona þurfa að bíða lengur eftir nýja Nývanginum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Stuðningsmenn Barcelona tóku margir illa í breytinguna og fylgdu félaginu ekki yfir á nýjan völl.
Stuðningsmenn Barcelona tóku margir illa í breytinguna og fylgdu félaginu ekki yfir á nýjan völl. David Ramos/Getty Images

Barcelona mun ekki snúa aftur á Nývang, Nou Camp, sinn heimavöll fyrr en á næsta tímabili.

Framkvæmdir við völlinn hófust sumarið 2023 átti að ljúka í desember en það hefur síðan frestast, nú er stefnt á að ljúka þeim í júní. Verið er að stækka stúkuna svo hún geti tekið við 105.000 áhorfendum.

Barcelona hefur leikið sína heimaleiki á Ólympíuleikvanginum á þessu tímabili og því síðasta. Stefnan var að snúa aftur á Nývang á 125 ára afmæli félagsins þann 29. nóvember 2024.

Þegar það gekk ekki vildi Joan Laporta, forseti félagsins, fá að spila leikinn á Nývangi þó framkvæmdum væri ekki lokið. Fyrir því fékkst ekki leyfi.

Framkvæmdir við Nývang hafa staðið yfir síðan sumarið 2023. Urbanandsport/NurPhoto via Getty Images

Töfin hefur líklega farið töluvert í taugarnar á Laporta, enda tapar félagið miklum tekjum á því að selja aðeins um fimmtíu þúsund miða á sína heimaleiki. Auk þess virðast stuðningsmenn Barcelona ekki hafa tekið vel í að vera á Ólympíuleikvanginum, félaginu tókst aðeins að selja rúmlega helming af ársmiðunum sem það auglýsti.

Lluís Companys Olympic Stadium hefur verið heimavöllur Barcelona síðan 2023. Aitor Alcalde/Getty Images

Síðan í nóvember hafa fjölmargar nýjar dagsetningar verið gefnar út. Nú hefur hins vegar verið samið um verklok í júní á þessu ári og Barcelona mun flytja aftur á Nývang á næsta tímabili. Mögulega sem ríkjandi spænskur meistari, enda er liðið í efsta sæti deildarinnar sem stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×