Fótbolti

Skipti um skoðun í landsleikjahlénu og rak Motta

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Eftir slæmt tap gegn Fiorentina fullyrti framkvæmdastjórinn Cristiano Giuntoli að hann myndi ekki reka Thiago Motta. Brottreksturinn var tilkynntur í gær.
Eftir slæmt tap gegn Fiorentina fullyrti framkvæmdastjórinn Cristiano Giuntoli að hann myndi ekki reka Thiago Motta. Brottreksturinn var tilkynntur í gær. Daniele Badolato - Juventus FC/Juventus FC via Getty Images

Þrátt fyrir jákvæðar yfirlýsingar framkvæmdastjórans fyrir landsleikjahlé var Thiago Motta vikið frá störfum í gær eftir aðeins níu mánuði sem þjálfari Juventus á Ítalíu. Igor Tudor tekur við af honum og stýrir liðinu út tímabilið.

Motta fór vel af stað á tímabilinu og Juventus var lengi ósigrað, þó liðið spilaði ekki skemmtilegasta fótboltann og leikir enduðu oft með markalausu jafntefli.

En undanfarið hefur leiðin legið niður á við, síðasta mánuðinn rúman hefur liðið dottið úr leik í Meistaradeildinni (4-3 í umspili gegn PSV) og ítalska bikarnum (tap í vítaspyrnukeppni gegn Empoli) og þurft að þola tvö slæm töp í síðustu leikjum gegn Atalanta (4-0) og Fiorentina (3-0).

Eftir tapið gegn Fiorentina fullyrti framkvæmdastjórinn Cristiano Giuntoli að Motta yrði ekki rekinn, honum hefur þó greinilega snúist hugur í landsleikjahlénu því brottreksturinn var staðfestur af félaginu í gær.

Hinn 47 ára gamli Igor Tudor mun taka við út tímabilið hið minnsta, með möguleika á framlengingu. Króatinn þekkir Juventus vel eftir að hafa spilað þar frá 1998-2007 og verið síðan aðstoðarþjálfari Andrea Pirlo tímabilið 2020-21.

Tudor hefur sérhæft sig í aðstoðar- og tímabundnum störfum. Nú síðast hjá Lazio eftir að Maurizio Sarri var rekinn vorið 2024. Tudor kláraði tímabilið með Lazio en hefur verið án þjálfarastarfs síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×