Ekrem Imamoglu, borgarstjóri Ístanbúl, var handtekinn á miðvikudag eftir að lögregla gerði leit á heimili hans. Imamoglu er sakaður um spillingu og tengsl við hryðjuverkasamtök. Hundrað stjórnarandstæðigar til viðbótar hafa verið handteknir á síðustu dögum. Stjórnvöld lokuðu nokkrum stórum vegum í höfuðborginni og bönnuðu mótmæli í nokkra daga.
Almenningur hefur þó lítið hlustað á það bann og hafa mótmælt síðustu fjórar nætur. Lögegla hefur haft mikið viðbragð, beitt bæði táragasi, reyksprengjum og piparúða á meðan mótmælendur hafa kastað steinum, blysum og öðrum hlutum að lögreglu.
Alvarlegt ábyrgðaleysi að leita út á göturnar
Tyrklandsforseti hefur verið harðorður í garð mótmælenda. Á fimmta hundað hafa verið handteknir í mótmælunum, sem farið hafa fram í Istanbúl, Ankara, Izmir, Adana, Antalya og fleiri borgum.

„Rétt eins og við höfum ekki gefist upp fyrir götuhryðjuverkum hingað til, munm við ekki beygja okkur fyrir skemmdarverkum í framtíðinni,“ sagði Recep Tayyip Erdogan, Tyrklandsforseti, í ræðu sinni á tyrkneska þinginu í dag.
„Að leita út á göturnar í stað dómstóla til að verja þjófnað, gripdeildir, lögleysu og fjársvik er alvarlegt ábyrgðarleysi,“ sagði hann einnig.
Handtekinn í miðju prófkjöri
Imamoglu var leiddur fyrir dómara í gær og úrskurðaður í gæsluvarðhald auk þess sem hann hefur verið ákærður fyrir meinta glæpi.
Prófkjör hefur farið fram í flokki hans, CHP, þar sem velja á frambjóðanda flokksins fyrir forsetakosningarnar 2028. Fjölmargir greiddu honum atkvæði sitt, þrátt fyrir handtökuna.
„Ég er í miklu uppnámi. Þetta er ekki lengur bara vandamál flokksins heldur vandamál lýðræðis í Tyrklandi. Við sættum okkur ekki við að réttindi okkar séu hrifsuð af okkur. Við munum berjast allt til enda. Við treystum Imamoglu og stöndum með honum,“ sagði Fusun Erben, kjósandi CHP.