Fótbolti

Sex marka sýning Ís­lands gegn Skotum

Sindri Sverrisson skrifar
Benoný Breki Andrésson var á skotskónum fyrir Ísland í dag.
Benoný Breki Andrésson var á skotskónum fyrir Ísland í dag. Getty/Ben Roberts

Íslenska U21-landsliðið í fótbolta karla vann 6-1 stórsigur gegn Skotlandi í seinni vináttulandsleik sínum á Pinatar Arena á Spáni í dag.

Ísland hafði áður unnið lið Ungverja 3-0 á föstudaginn og virðist því á góðri leið undir stjórn Ólafs Inga Skúlasonar sem í þessari ferð var með Ara Frey Skúlason sér til aðstoðar. Liðið byrjar nýja undankeppni EM í september.

Benoný Breki Andrésson, markametshafinn í efstu deild á Íslandi og leikmaður Stockport County, skoraði tvö marka Íslands í fyrri hálfleik en staðan að honum loknum var 3-0.

Benoný skoraði fyrst á 24. mínútu eftir snarpa skyndisókn og undirbúning Róberts Frosta Þorkelssonar og Hauks Andra Haraldssonar.

Haukur lagði svo upp annað mark leiksins fyrir Eggert Aron Guðmundsson sem lyfti boltanum skemmtilega upp í teignum og smellti honum í vinstra hornið. Seinna mark Benonýs kom svo rétt fyrir hálfleik þegar hann skoraði eftir hornspyrnu Jóhannesar Kristins Bjarnasonar.

Haukur, Hilmir og Helgi skoruðu í seinni

Snemma í seinni hálfleik minnkuðu Skotar muninn með skallamarki en á eftir fylgdu þrjú íslensk mörk til viðbótart.

Haukur Andri, sem spilar með ÍA í sumar eftir að hafa kvatt bróður sinn hjá Lille, skoraði á 58. mínútu eftir sendingu frá Benoný.

Dagur Örn Fjeldsted fann svo Hilmi Rafn Mikaelsson sem skoraði fimmta markið úr teignum og það var síðan Jóhannes sem innsiglaði sigurinn eftir sendingu frá Helga Fróða Ingasyni á 82. mínútu.

Íslensku strákarnir byrja svo undankeppni EM á leikjum við Færeyjar og Eistland í september en eru einnig í riðli með Sviss, Frakklandi og Lúxemborg.


Tengdar fréttir

KR á flesta í U21-hópi Íslands

Ólafur Ingi Skúlason, landsliðsþjálfari U21 liðs karla, hefur valið hópinn sem leikur vináttuleiki gegn Ungverjum 21. mars og gegn Skotum 25. mars. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×