Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Þar segir að töflurnar hafi verið látnar líta út eins og Oxycontin 80 milligrama töflur, og umbúðir þeirra merktar sem slíkar og álumbúðir merktar Mundipharma A/S.
Rannsókn hafi hins vegar leitt í ljós að þarna væru töflur sem innihéltu Nítazene, sem mun vera framleitt á ólöglegum markaði. Nítazene er sagt vera flokkur lyfja sem teljist til nýmyndaðra ópíóíða.
„Efnið er hættulegt heilsu manna og hafa verið gefnar út aðvaranir vegna efnisins erlendis,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.
Þar er jafnframt bent á að neysla samsvarandi efnis hafi valdið að minnsta kosti einu andláti í Hollandi.
„Af þessu tilefni telur Lögreglustjórinn á Suðurnesjum og Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði, Háskóla Íslands, tilefni til að senda út þessa fréttatilkynningu til að vara almenning við kaupum þessara og annarra efna án aðkomu lækna og lögmætra lyfsala. Þá virðist efnið vera nýtt á fíkniefnamarkaði erlendis.“